Samkeppnisstaða kanadískra sjávarafurða mun skerðast vegna innflutningstolla Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna og það sama mun gerast fyrir evrópskar afurðir ef tollar verða settar á ríki Evrópusambandsins. Ríki sem framleiða sjávarafurðir en verða ekki fyrir tollum bandarískra yfirvalda munu hins vegar sjá stöðu sína bætta á Bandaríkjamarkaði.
Það verður þó skammgóður vermir því verðhækkanir sem verða á mörkuðum geta hæglega dregið úr eftirspurn sem mun auka samkeppni á öðrum mörkuðum.
Þetta segir Philip Scrase, yfirmaður greiningardeildar Kontali á sviði fiskeldis, í vikulegri markaðsgreiningu sem er til umfjöllunar hjá Fishfarmingexpert.
Hann segir ljóst að tollar bandarískra yfirvalda munu trufla flæði viðskipta, verðmyndun og breyta markaðsaðstæðum á heimsvísu.
Innflutningstollarnir sem settir hafa verið á Kanada (25%) og boðaðir tollar á Evrópusambandið munu til skemmri tíma bæta samkeppnisstöðu eldislax frá Síle og Noregi. „Hærri tollar munu leiða til hækkandi verðs á laxi í Bandaríkjunum, sérstaklega fyrir vörur sem ekki er auðvelt að skipta út,“ segir Scrase.
Ætla má að þessi áhrif munu einnig ná til íslenskra sjávarafurða, þar sem Ísland er í sambærilegri stöðu og Noregur.
Scrase segir hins vegar ávinninginn af hærra verði kunna snúast í andhverfu sína.
„Jafnvel þegar Noregur og Chile stíga inn til að auka framboð í Bandaríkjunum, munu hærri tollar hækka neysluverð – hugsanlega um allt að 10% – á sama tíma og alþjóðlegt viðskiptaflæði endurmótast. Komi til víðtækra tollahækkana mun eftirspurn í Bandaríkjunum minnka og afurðum verður beint til Evrópu og Asíu, sem eykur samkeppni og þrýstir á verð.“
Nýverið var greint frá því að þingmaðurinn Clay Higgins frá Louisiana hafi hvatt Trump til að leggja 100% innflutningstoll á sjávarafurðir, sérstaklega frá Kína, Ekvador, Víetnam, Indlandi og Indónesíu.
Scrase vekur þó athygli á því að þróunin mun vera háð því hversu háir og umfangsmiklir hugsanlegir tollar verða.
Tollarnir geta leitt til þess að innlend framleiðsla í Bandaríkjunum aukist, en það kallar á umtalsverðar fjárfestingar og uppbyggingu nýrra framleiðslustöðva. Slíkar breytingar taka þó langan tíma að sögn Scrase sem telur markaðina þurfa þó nokkurn tíma til að ná jafnvægi.