Greining fitusýna úr húð hnúfubaka við Nýfundnaland hefur sýnt að fæða þeirra að sumri var um 90% loðna og það þrátt fyrir hrun loðnustofnsins á þessum slóðum. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á sterka fylgni milli ferða hnúfubaka í fæðuleit og þéttleika loðnu.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að til skoðunar sé að leggja fram þingsályktunartillögu um rannsóknir á afráni hnúfubaka á loðnustofninum við Ísland.
„Við komumst að þeirri niðurstöðu að loðnan væri u.þ.b. 90% af sumarfæðu hnúfubaks á sumarfæðusvæði þeirra undan norðausturströnd Nýfundnalands, þrátt fyrir að loðnustofninn við Nýfundnaland hafi ekki enn náð sér eftir hrun stofnsins,“ segir í kanadískri vísindagrein sem birt var 2021 í vísindatímaritinu Canadian Journal of Zoology.
Rannsóknin byggði greiningu fitusýna sem tekin voru í júlí og ágúst árin 2016 og 2017 og sýndu niðurstöðurnar sambærilegt hlutfall af loðnu í fæðu hvalanna bæði árin, að því er segir í greininni „Stable isotope analysis reveals that humpback whales (Megaptera novaeangliae) primarily consume capelin (Mallotus villosus) in coastal Newfoundland, Canada“.
„Þar sem loðna er enn í miklu magni við ströndina á sumarhrygningartímanum á ákveðnum svæðum, geta hnúfubakar haldið loðnu í háu hlutfalli af fæðu bæði fyrir og eftir hrun loðnustofnsins, svipað og önnur rándýr.“
Þá segir í greininni að loðna sé útsettari fyrir ágengni hnúfubaka en sandsíli þar sem loðnutorfurnar á hrygningarsvæðum haldi þéttleika sínum þrátt fyrir árásir rándýra, á meðan sandsílin hrygni seint að hausti eða í vetrarbyrjun og grafi sig í sand yfir daginn.
Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að vitað sé að fjölgun hnúfubaka á Norður-Atlantshafi hafi áhrif á afrakstur loðnustofnsins en ekki sé vitað í hve mikil þau áhrif eru. Jafnframt kemur fram að reynt hafi verið að ná fitusýnum til greiningar á árunum 2018 til 2022 en það hafi gengið erfiðlega.
Sterkar vísbendingar eru um að hnúfubakar leiti sérstaklega að fæðu á svæðum þar sem finna má loðnu að sumri, að því er fram kemur í grein norskra vísindamanna „Foraging movements of humpback whales relate to the lateral and vertical distribution of capelin in the Barents Sea“ sem birt var í Frontiers of Marine Science árið 2023.
„Hnúfubakar fylgja í stórum dráttum útbreiðslu og lóðréttum hreyfingum loðnunnar þegar þeir eru á sumarfæðusvæði í Barentshafi. Minni hraði og stefna láréttra hreyfinga innan svæða með mikla loðnuþéttleika bendir eindregið til þess að hnúfubakar markvisst sækja á svæði með háan þéttleika loðnu,“ segir í greininni.
Norðmennirnir vildu þó ekki fullyrða um afrán hnúfubaka og segja ekki ljóst hvort hvalirnir séu að leita beint í loðnuna í Barentshafi og/eða að þeir séu að leita í sömu bráð og loðnan, það er að segja ljósátu eða krabbaflær.
„Burtséð frá því hvort önnur eða báðar þessar tilgátur eru sannar, þá styður uppgötvun okkar um að hreyfingar hnúfubaka í fæðuleit verða fyrir áhrifum breytinga á útbreiðslu loðnu og þéttleika hennar að sterk tengsl eru milli hnúfubaks og loðnu.“
Hnúfubökum hefur fjölgað á Norður-Atlantshafi jafnt og þétt undanfarin ár og áratugi, en tegundin var friðuð um miðja síðustu öld.
Þessi hvalategund verður um 15 til 17 metra að lengd og eru kvendýrin um einn til einn og hálfan meter lengri en karldýrin. Dýrin verða kynþroska þegar þau eru á bilinu fimm til tíu ára gömul og er fæða breytileg eftir svæðum, að því er fram kemur á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet. Þar segir að fæðan nær til alls frá ljósátu til smáfiska sem synda í torfum eins og loðnu og jafnvel síld.
Á sumrin eru hnúfubakar í fæðuleit í köldum sjó á Norðurslóðum en synda suður á hlýrri svæði þar sem þeir fjölga sér.
„Kálfarnir fylgja móðurinni í að minnsta kosti eitt ár og það þýðir að tenging við ákveðin fæðusvæði myndast í gegnum móðurina. […] Norðan við Dóminíska lýðveldið í Karíbahafinu er vel þekktur landgrunn þar sem við finnum hnúfubak sem eiga fæðusvæði meðfram ströndum Bandaríkjanna og Kanada, við Vestur-Grænland, Ísland og í Barentshafi. Jafnvel þótt þeir séu með sameiginlegt æxlunarsvæði er lítil blanda milli dýra á mismunandi fæðusvæðum,“ segir á vef norsku stofnunarinnar.