Fiskistofa hefur tekið ákvörðun um að svipta Júlíu SI-62 um leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur frá 7. apríl næstkomandi vegna brottkasts. Stofnunin segir að um „ámælisverð og meiriháttar“ brot sé um að ræða.
Málið varðar atvik þegar skipið var á grásleppuveiðum 3. apríl á síðasta ári. Þann dag flugu eftirlitsmenn Fiskistofu dróna til að fylgjast með veiðum Júlíu SI og sást til skipstjóra og háseta draga inn veiðarfæri greiða afla úr þeim á netaborði.
Þá segir í málsgögnum að „fljótlega eftir að eftirlitið hófst hafi eftirlitsmenn virkjað myndupptökubúnað flugfarsins. Tekin voru upp nokkur myndbönd og er samanlögð lengd þeirra um 40 mínútur. Á þeim sést þegar skipverjar ýmist kasta fiski fyrir borð eða ýta honum með fæti út um lensport, eftir að hafa greitt þá úr veiðarfærum, með þeim afleiðingum að þeir féllu aftur í sjóinn, samtals tuttugu og sex (26) þorskar, fjórir (4) skarkolar og einn (1) steinbítur.“
Stofnunin viðurkennir að ávinningurinn af því að varpa 31 fiski útbyrðis verði að teljast smávægilegur, en vísar til ríkra almannahagsmuna sem fólgnir séu í því að nákvæmar upplýsingar liggi fyrir um hvað tekið sé úr auðlindum sjávar. Einnig er talið að ásetningur áhafnarinnar hafi verið augljós.
„Af háttsemi skipverja má ráða, að þeir hafi vísvitandi látið hjá líða að hirða verðminni meðafla, en hirt vænni meðafla sem og sóknarafla (grásleppa). Á myndböndum sést m.a. þegar skipverjar velja álitlega og heila þorska sem þeir blóðga sérstaklega, og koma fyrir um borð í stað þess að henda útbyrðis.“
„Þá sést í eitt skipti þegar skipverji tínir upp upp þrjá þorska, sem hafði verið komið fyrir um borð, og hendir þeim útbyrðis. Háttalag þeirra gefur til kynna að þeir hafi sérstaklega flokkað verðmætari meðafla, sem auðséð að ætlunin var að landa, frá þeim afla sem þeir hentu útbyrðis í sjó,“ segir í ákvörðuninni um leyfissviptinguna.
Fiskistofu þykir ljóst að háttsemi áhafnarinnar á Júlíu SI feli í sér brot gegn ákvæðum laga um umgengni um nytjastofna sjávar, en skylda er að landa öllum afla.
„Af öllu framangreindu er niðurstaða Fiskistofu að um ámælisverð og meiriháttar brot hafi verið að ræða,“ segir í ákvörðuninni.
Þá telur stofnunin ekki koma til greina að veita áminningu vegna málsins þar sem brotin teljast ekki minniháttar, auk þess sem lágmarkssvipting (ein vika) komi ekki til greina vegna magn afla sem kastað var í sjóinn.