Illa hefur gengið að veiða ufsa í vetur og var aðeins landað 1.781 tonni af þeirri tegund í febrúar síðastliðnum. Það er 43% minni afli en í sama mánuði í fyrra. Í janúar var landað 2.117 tonnum af ufsa en það var 30% minni afli en landað var í janúar 2024.
Þetta má lesa úr tölum Hagstofu Íslands.
Þar má sjá að landað var 36.244 tonnum af ufsa á tólf mánaða tímabilinu mars 2024 til febrúar 2025 sem er 14% minni afla en tólf mánaða tímabili á undan.
Aukning í ýsu og karfa
Alls var afli íslenskra fiskiskipa tæplega 70 þúsund tonn í febrúar síðastliðnum sem er 3% aukning frá sama mánuði á síðasta ári. Munar þar mestu um 4.373 tonn af loðnu.
Botnfiskafli var 36.774 tonn sem er 5% minni afli en í febrúar 2024. Um 4% samdráttur varð í þorskafla en aukning varð í ýsu, karfa og öðrum botnfiskafla.
Uppsjávarafli íslensku skipanna var í febrúar síðastliðnum 16% meiri en í febrúar 2025 og nam hann 32 þúsund tonn. Sem fyrr segir munar mestu um loðnuafla en engin loðna var veidd á síðasta ári. Auk þess jókst síldaraflinn myndarlega, úr 364 tonnum í febrúar á síðasta ári í 4.200 tonn á þessu ári.
Samdráttur varð þó í kolmunna og nam aflinn 23.430 tonn.
Mikill samdráttur í uppsjávarafla
Á tímabilinu mars 2024 til febrúar 2025 var landað samtals 987 þúsund tonnum sem er 23% minni afli en á sama tímabili á undan. Það er að mestu leyti vegna loðnubrests á síðasta ári og lítilli loðnuvertíð nú í vetur.
Einnig spilar inn í verulegur samdráttur í makrílafla, en síðastliðið sumar var langtum minna af makríl í íslenskri lögsögu en tíðkaðist á árum áður og gekk illa að veiða þann afla sem útgerðirnar höfðu heimildir fyrir. Þá varð einnig samdráttur í síldarafla.