Niðurstaða landgrunnsnefndar Sameinuðu Þjóðanna í endurskoðun skilgrieningu landgrunns Íslands er Íslandi mjög hagfelld, að því er segir í tilkynningu á vef stórnarráðsins. Þar segir um að ræða „farsæla niðurstöðu í mikilvægu ferli sem staðið hefur yfir í tvo og hálfan áratug.“
Niðurstaða nefndarinnar vegna endurskoðaðrar greinargerðar Íslands um landgrunn á Reykjaneshrygg bárust íslenskum stjórnvöldum síðastliðinn föstudag. Landgrunnssvæðið sem samþykkt var af nefndinni er töluvert víðfeðmt og nær rúmar 570 sjómílur frá grunnlínum.
„Niðurstaðan er mjög góð fyrir Ísland og henni ber að fagna. Fullveldisréttindi Íslands yfir landgrunni sínu á Reykjaneshrygg eru nú tryggð til framtíðar og þá tryggir niðurstaðan að ákvarðanir um hvort eigi að nýta eða vernda auðlindir svæðisins verði á forræði Íslands og engra annarra,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í tilkynningunni.
Fram kemur að Íslensk stjórnvöld munu nú hefjast handa við að afmarka landgrunn Íslands á Reykjaneshrygg og Ægisdjúpi með endanlegum og bindandi hætti gagnvart öðrum ríkjum, í samræmi niðurstöður landgrunnsnefndarinnar.
„Lokahnykkur verkefnisins var vinna sendinefndar Íslands með landgrunnsnefndinni sem stóð frá ágúst 2023 fram til 10. mars síðastliðnum, en sendinefndin samanstóð af fulltrúum utanríkisráðuneytisins og vísindafólki frá ÍSOR og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Mikil vinna ýmissa stofnanna og ráðuneyta liggur að baki verkefninu yfir langt tímabil, en landgrunn ríkja er afmarkað á vísindalegum grunni í samræmi við ákvæði hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna,“ segir í tilkynningunni.
Endurskoðuð greinargerð íslenskra yfirvalda var afhent landgrunnsnefndinni árið 2021.
Hafrettarsamningurinn gerir ráð fyrir að strandríki eigi landgrunn allt að 200 sjómílum frá grunnlínu, en þessu til viðbótar eiga sum strandríki landgrunn utan 200 sjómílna. Það sé þó háð ákveðnum skilyrðum.
Ríki sem telja sig eiga landgrunn utan 200 mílna er gert að senda landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna ítarlega greinargerð um ytri mörk landgrunnsins og yfirfer nefndin greinargerðina, leggur tæknilegt mat á hana og gerir tillögur um landgrunnsmörkin. Á grundvelli tillagna nefndarinnar getur strandríkið síðan ákveðið á endanlegan og bindandi hátt mörk landgrunnsins gagnvart öðrum ríkjum.
„Mikilvægt er að Íslendingar öðlist yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunnssvæðum enda má gera ráð fyrir að réttindi yfir landgrunninu muni fá aukna þýðingu í framtíðinni. Landgrunn Íslands utan 200 sjómílna samanstendur af Ægisdjúpi, í suðvestur hluta Síldarsmugunnar, Reykjaneshrygg og Hatton Rockall-svæðinu, sem Bretland, Írland og Danmörk/Færeyjar gera einnig tilkall til. Niðurstöður landgrunnsnefndarinnar liggja nú fyrir varðandi bæði Reykjaneshrygg og Ægisdjúp, en nefndin skilaði tillögum sínum um ytri mörk landgrunns Íslands í Ægisdjúpi árið 2016. Greinargerð um Hatton Rockall-svæðið er í undirbúningi,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að náttúruauðlindir sem tilheyra landgrunninu eru jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma, aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna, til dæmis jarðhiti, og lífverur í flokki botnsetutegunda og erfðaefni þeirra. Réttindi strandríkisins yfir landgrunninu utan efnahagslögsögunnar hafa ekki áhrif á réttarstöðu hafsins þar fyrir ofan sem telst úthaf og ná ekki til fiskistofna né annarra auðlinda þess.