Sífellt aukið mikilvægi Norður-Ameríku sem áfangastað fyrir sjávarafurðir Íslendinga hefur meðal annars verið ástlæða þess að Eimskip hefur eflt siglingar sínar þangað til muna.
„Við höfum verið að fjárfesta í grænu leiðinni (Ameríkusiglingunni) okkar til að aðlaga hana betur að ferska fiskinum. Við fórum í miklar breytingar fyrir tveimur árum síðan með því að slíta strandsiglingunni frá þessari leið og auka afkastagetu okkar á grænuleiðinni, auk þess sem við nýtum stærri skip en áður. Á síðasta ári er afkastageta skipa okkar 50% meiri en fyrir fimm árum,“ segir Hjörvar Guðmundsson forstöðumaður útflutnings hjá Eimskip.
Félagið er með stæðilegan bás á sjávarútvegssýningunni í Boston sem hófst síðastliðinn sunnudag og lýkur í dag.
„Þetta er mjög mikilvægur markaður fyrir okkar viðskiptavini, Bandaríkjamarkaður er gríðarlega stór og jafnvel Nýja-Englandssvæðið sem við erum á núna er um fimmtán milljónir manns. Þetta er mjög mikilvægt svæði bæði fyrir frosin fisk og ferskan, þannig að við erum hér bæði að fylgja eftir okkar viðskiptavinum og styðja þá í markaðsetningu og sölu til Bandaríkjanna og Kanada,“ segir Hjörvar.
Veðurfarið á Norður-Atlantshafi getur verið allskonar og því er ávallt ákveðin hætta á að flutningar sjóleiðina sem og loftleiðina verði fyrir truflunum.
Er hægt að tryggja afhendingaröryggi við slíkar aðstæður?
„Það fylgir því að vera á Íslandi að það er oft skítaveður,“ svarar Hjörvar og hlær.
Hann bendir þó á að með því að stækka umsvif sín og þar með stækka skipum eykst áreiðanleikinn. „Við sjáum eins og með því að taka inn Bakkafoss í stað Selfoss hefur áreiðanleikinn aukist og hraðinn sem skipið nær að halda í gegnum brælurnar áreiðanlegri en hjá minni skipum. Þetta vinnur allt saman – með auknu magni næst betri árangur.“
Hjörvar segir flutning á fiski frá Íslandi til Ameríku hafi aukist undanfarið sérstaklega ferskur lax, en geymsluþol laxins ásamt því að Ísland sé ekki mjög langt frá Ameríku gerir það að verkum að flutningur sjóleiðina með ferskan lax henti vel.
„Þetta er ákveðið samkeppnisforskot fyrir Íslendinga að hafa þessa siglingaleið inn á Bandaríkin. Þetta er ódýrari flutningur heldur en flug þannig að það eykur samkeppnishæfni í verði. Það er einnig töluvert minna kolefnisspor við flutninga um siglingaleiðina en í flugi, sem ég held að kaupendur á íslenskum laxi séu meira og meira að horfa til. Svo er líka miklu meiri afkastageta inn á markaðinn sjóleiðina.“
Hann telur öfluga flutningsleið til Norður-Ameríku mikilvægan lið í sókn Íslendinga inn á Ameríkumarkað – fyrir laxinn en ekki síður aðrar tegundir sem geta nýtt sér þetta forskot.