Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur lagt mikið í sölurnar til að efla stöðu sína á Bandaríkjamarkaði og stofnaði nýverið eigið sölufélag í Bandaríkjunum, VSV America.
„Bandaríkjamarkaður er mikilvægur sérstaklega í þorski og ýsu. Þetta er náttúrulega gríðarlega stór markaður. Við erum alltaf að leitast við að leggja ekki öll eggin í sömu körfu. Við erum með stóra viðveru víðs vegar í Evrópu og í Asíu og höfum kannski ekki verið jafn mikið í Ameríku fram að þessu en viljum auka hlutdeild okkar hér,“ segir Björn Matthíasson rekstrarstjóri VSV Seafood Iceland í samtali við 200 mílur.
Vinnslustöðin er mætt á sjávarútvegsýninguna í Boston með eigin bás en þó meðal annarra íslenskra fyrirtækja. Bandaríkin skipar sífellt mikilvægari sess sem kaupandi íslensks sjávarfangs og er aukning í fjölda íslenskra sýnenda dæmi um það.
„Við höfum verið að selja inn á Ameríku, bæði í gegnum Hólmasker í Hafnarfirði og Leo Seafood í Vestmannaeyjum. Við erum nýlega búin að stofna söluskrifstofu í Bandaríkjunum, VSV America, þar sem við erum að stíga skref í þá átt að stýra sölunni meira sjálfir og búa til sambönd sem við getum byggt á til framtíðar,“ útskýrir Björn.
Hann segir söluna inn á Bandaríkjamarkað til þessa hafa aðallega verið stýrt frá Íslandi og í sumum tilfellum farið fram í gegnum önnur sölunet og í gegnum milliliði. Með sölufélaginu breytist staðan nokkuð því þá sé hægt að eiga afurðir til í Ameríku sem verður til þess að hægt verði að þjónusta kaup á minni skömmtum.
„Við erum að reyna að komast nær neytandanum, auðvelda vinnu okkar við að byggja upp samböndin og fáum kannski aðeins meira fyrir vöruna þannig,“ segir Björn.
Er erfitt að selja íslenskan fisk í Ameríku?
„Það er smá vinna að komast inn. Bandaríkjamaðurinn er mjög tryggur, en um leið og maður er kominn inn fyrir og búinn að sanna sig þá held ég það séu fáir sem eru eins heiðarlegir í viðskiptum, staðfastir og tryggir viðskiptafélagar og Bandaríkjamenn,“ svarar Björn.
Hann segir Ísland vel þekkt sem framleiðandi sjávarfangs í efsta gæðaflokki. „Það fer gott orð af íslensku sjávarfangi og við getum óhikað flaggað því að við séum frá Íslandi og bjóðum gæðavöru. Við erum þekkt fyrir góða vörumeðhöndlum, góða framleiðslu sem uppfyllir alla helstu gæðastaðla, sem skilar frábærum afurðum til neytenda.“
Lykilatriði í sölu sjávarafurða er að sögn Björns að tryggja stöðugt framboð, það gangi einfaldlega ekki að detta af markaði í lengri tíma og vilja kaupendur stöðugar horfur í afhendingu. Það hafi meðal annars verið ástæða þess að mikilvægt þótti að fjárfesta í uppbyggingu sölufélags í Bandaríkjunum.
Björn segir markaðinn, sérstaklega á austurströnd Bandaríkjanna, eftirsóknarverðan því þar er að finna fólk sem er tilbúið að greiða fyrir há gæði. Það séu því bjartir tímar í vændum ef tekst vel að treysta viðskiptasambönd Vinnslustöðvarinnar.