Hávaði getur valdið því að eldislax þrói með sér króníska streitu með tilheyrandi áhrifum á heilastarfsemi fisksins, en laxinn þolir vel það hljóð sem fylgir rekstri sjókvíaeldis, að því er segir í Morgunblaðinu í dag.
Fram kemur að þetta sé niðurstaða rannsóknar vísindamanna við norsku hafrannsóknastofnunina (Havforskningsinstituttet), norska landbúnaðarháskólans NMBU og Deakin-háskóla í Ástralíu á áhrif hljóðs á heilbrigði eldisfiska.
„Lax sem var útsettur fyrir háværu streituvaldandi hljóði fimm mínútur á dag í 30 daga brást við með flóttaviðbrögðum og aukinni framleiðslu streituhormónsins kortisóls,“ segir vísindamaðurinn Frode Oppedal í færslu á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.
Þar segir að hljóðmengunin sem beitt var á laxinn á tilraunastöð samsvari því sem lax í sjókvíum getur orðið fyrir þegar hávær vinna fer fram í umhverfi hans, eins og hljóð frá lúgum sem skella og jafnvel sprengingar.
Kallað eftir aðgerðum
Oppedal útskýrir að laxinn virðist með tíma venjast hávaðanum og ekki sýna jafn mikil viðbrögð við hljóðmenguninni, en ummerki voru um króníska streitu í heila. Jafnframt virðist hávaðinn hafa hamlað svokallaðri genatjáningu sem hefur áhrif á vöxt og æxlun fiskanna. Hann segir þekkingu á áhrifum sem lax verður fyrir af völdum hljóðs enn takmarkaða og telur nauðsynlegt að samspil hljóðvistar og heilbrigðis laxa verði rannsakað nánar.
Norska hafrannsóknastofnunin hefur nýverið kynnt skýrslu þar sem lagt er til að gripið verði til aðgerða til að draga úr hljóðmengun í og við sjókvíaeldi til að tryggja velferð eldisfiska.
Ekki er vitað til þess að sérstökum aðgerðum hafi verið beitt hér á landi til að bæta hljóðvist í sjókvíum.