Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kynntu í dag breytingar á lögum um veiðigjöld, en í þeim felst breyting á skráðu aflaverðmæti fyrir bæði botnfisk og uppsjávarfisk. Áætlar ráðherra að breytingin hefði skilað auka 10 milljörðum í veiðigjöld í fyrra, eða um tvöföldun. Stærstur hluti þessarar aukningar mun lenda á stærri útgerðum landsins.
Hanna Katrín sagði að með þessari breytingu ætti að skapa auknar tekjur sem myndu nýtast í innviðauppbyggingu á landsbyggðinni og nefndi hún sérstaklega vegaframkvæmdir. Sagði hún þetta jafnframt vera mikið réttlætismál svo að þjóðin fengi aukinn hlut í arði af auðlindinni. Þannig ætti þetta að leiða til þess að þjóðin fengi þriðjung hagnaðar og útgerðin tvo þriðju hluta.
Á fundinum fór Daði Már yfir þá skoðun sem gerð var af hálfu stjórnvalda og sagði að útreikningur veiðigjalds ætti að endurspegla raunverulegt markaðsverð. Sagði hann mikinn mun á aflaverði sem greitt væri fyrir t.d. norsk-íslenska síld, kolmunna, makríl, þorsk og ýsu á fiskmarkaði hér á landi og í Noregi. Lagt væri til að breyta viðmiði aflaverðmætis þessara tegunda og fyrir uppsjávartegundirnar yrði miðað við opinber gögn frá Fiskistofu Noregs.
Sagði hann skoðunina hafa leitt í ljós að munurinn á aflaverði hér á landi og í Noregi væri mjög mikill og mun meiri en hægt væri að skýra af mögulegum stærðar- eða gæðamun. Þannig væri verð hærra um sem nemur 58% á síld, 15% fyrir kolmunna og 124% fyrir makríl í Noregi. „Rétt skal vera rétt,“ sagði Daði Már.
Hanna Katrín sagði ríkisstjórnina algjörlega samstiga í að vinna að almannahagsmunum í þessu máli og að nú þegar væri málið komið í samráðsgátt og hvatti hún almenning til þess að fylgjast vel með málinu. „Við erum að gera þetta í ykkar þágu.“
Samhliða þessari breytingu mun frítekjumark hækka og sagði Hanna Katrín að það myndi aðallega gagnast litlum og meðalstórum útgerðum, en að aukin gjaldtaka myndi helst lenda á stóru útgerðunum. Tiltók hún að meginröksemdir fyrir veiðigjöldum væru annars vegar að standa undir kostnaði við þjónustu ríkisins við sjávarútveginn, en þar undir falla meðal annars rannsóknir og eftirlit, og svo að tryggja „þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild“ í arði af auðlindinni.
Hanna Katrín var á fundinum spurð hvort það hefði komið til greina að skoða að rukka veiðigjald aftur í tímann samkvæmt þessu, þar sem þau hefðu bent á mikinn mun á milli Íslands og Noregs. Neitaði hún því ekki að það hefði verið áhugavert að sjá áhrifin aftur í tímann og að umræða hefði farið fram um einhverja afturvirkni. Hins vegar hefði verið ákveðið að slá strik í sandinn og horfa frekar til framtíðar.