Þórunn Þórðardóttir HF 300, nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, lauk síðun fyrsta rannsóknarleiðangri síðastliðinn sunnudag er hún kom til hafnar í Hafnarfirði. Með því lauk svokölluðu marsralli sem er stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum.
Auk Þórunni tóku þátt rnnaóknarskipið Árni Friðriksson og togararnir Breki og Þórunn Sveinsdóttir. Í skipunum fjórum voru 32 rannsóknarmenn og um 70 áhafnarmeðlimir. Togað var á 580 stöðvum umhverfis landið á 20 til 500 metra dýpi, að því er fram kemur í færslu á vef Hafrannsóknastofnunar.
Fram kemur að Þórunn Þórðardóttir tók stöðvar út af Vestfjörðum og fyrir norðan land. „Það fór vel um alla í leiðangrinum en aðstaða um borð er góð. Rými til mælinga, bæði á millidekkinu og í rannsóknastofu, er gott og hentaði mjög vel fyrir mælingarnar sem fóru fram.“
Þá segir að verkefnið sé „mjög viðfangsmikið og eitt af stærstu verkefnum Hafrannsóknastofnunar. Gögnum sem safnað er gegna lykilhlutverki í stofnmati og veiðiráðgjöf fyrir flestar íslenskar botnfisktegundir. Gögnin eru einnig mikilvæg fyrir ýmiskonar vistfræðirannsóknir. Í verkefninu er gögnum safnað um fiska sem flokkast ekki sem nytjategundir og eru þau notuð til að skoða breytingar í tegundafjölbreytileika, m.a. með tilliti til breytinga í hitastigi sjávar,“ segir í færslunni.
Þórunn Þórðardóttir HF er sögð hafa reyns vel í fyrsta leiðangri sínum.
Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun
Greint er frá því að rýnt hefur verið í innihald maga þorsks í fjöldamörg ár til að leggja mat á breytileika í fæðu eftir svæðum og árum og var það einnig gert að þessu sinni.
„Í leiðangrinum er einnig safnað sýnum vegna ýmissa annara rannsókna, t.d. á mengunarefnum í sjávarfangi og mat lagt á magn rusls á sjávarbotni. Auk þess var botndýrum sem fást sem meðafli safnað á nokkrum stöðvum um borð í Þórunni Þórðardóttur til að fylgjast með lífmassa, fjölbreytileika og útbreiðslu botndýra við Ísland.“