Hækkun veiðigjalda mun hafa slæm áhrif á smærri útgerðir í landinu og verða til þess að fólk á landsbyggðinni missi vinnuna. Þar að auki mun þetta stuðla að frekari samþjöppun í sjávarútveginum.
Þetta segir Örvar Marteinsson, formaður Samtaka smærri útgerða, í samtali við mbl.is.
„Þetta blasir bókstaflega hræðilega við okkur,“ segir Örvar
Ríkisstjórnin kynnti á þriðjudag hugmyndir um tvöföldun auðlindagjalds í sjávarútvegi.
Útgerðir í Samtökum smærri útgerða eru fyrst og fremst í krókaaflamarkinu og eru línubátar. Að mestu er veidd ýsa og þorskur.
Auðlindagjald á ýsu á að hækka um 25% og yfir 60% á þorski.
„Ég held að þetta komi til með að leggjast mjög þungt á þær útgerðir sem eru innan okkar samtaka, sérstaklega af því að svigrúm til hagræðingar er ekkert hjá okkur,“ segir hann.
Í krókaaflamarkinu má einungis róa með línu og handfæri, en samtökin hafa barist fyrir meira frelsi í þessum efnum til þess að geta hagrætt í rekstri. Örvar segir að línuútgerð sé afskaplega dýr í rekstri.
„Miðað við það að við getum ekki hagrætt á nokkurn hátt þá held ég að afleiðingarnar hljóti að verða fækkun útgerða, sem þýðir náttúrulega bara aukin samþjöppun og atvinnumissir sjómanna á bátunum,“ segir hann.
Örvar segir að útgerðirnar í samtökunum séu aðeins á landsbyggðinni og því megi segja að hækkunin muni bitna verst á landsbyggðinni.
Var eitthvað samráð við ykkur áður en þessi áform voru kynnt?
„Nei. Það er ósköp. Það var ekkert samráð,“ segir hann.
Hann segir að smærri útgerðir hefðu verið til í að kynna fyrir stjórnvöldum áhrifin af breytingunum fyrir útgerðir í krókaaflamarkinu.
„Ef við ætlum að halda okkur við þá stefnu að það eigi að vera störf við útgerð í landinu og að of mikil samþjöppun í sjávarútvegi sé neikvæð, þá hefðum við viljað segja þeim að þetta getur bara endað á þann veg að það verður aukin samþjöppun. Ekki síst hjá okkur af því að bátarnir geta ekki hagrætt. Þetta geti ekki farið á önnur veiðarfæri þar sem það er ódýrara og þvíumlíkt.“
Örvar segir að þessar breytingar muni hafa áhrif hjá öllum sjávarútvegsfyrirtækjum en að áhrifin muni fyrst sjást hjá þeim sem eru í krókaaflamarkinu. Segir hann að þetta muni þó einnig hafa áhrif hjá útgerðum sem eru í aflamarkinu.
„Þetta hlýtur að flýta fyrir því að menn leggi upp laupana,“ segir hann og bætir við:
„Daði Már á nú að vita þetta og það stendur meira að segja í skýrslunni frá Auðlindinni okkar, þar er skýrt tekið fram að allar rannsóknir sýni fram á það að aukin gjaldtaka í sjávarútvegi flýti fyrir samþjöppun. Það á ekki að vera neitt leyndarmál og það á að vera gjörsamlega augljóst,“ segir Örvar.
Spurður hvort að það sé slæmt að það verði samþjöppun í sjávarútvegi segir hann að það muni leiða til þess að menn missi vinnuna og að það muni bitna á sjávarþorpum út á landi.