Ráðuneytið afhenti ekki gögn

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Samtökin segja beiðni um að …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Samtökin segja beiðni um að fá afhent grunngögn og útreikninga til grundvallar frumvarps um stórfellda hækkun veiðigjalda ekki hafa verið svarað. mbl.is/Árni Sæberg

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) segja atvinnuvegaráðuneytið hafa torvelt hagaðilum verkið að semja ígrundaða umsögn um fyrirhugaða hækkun veiðigjalda með því að svara ekki ítrekaðri beiðni samtakanna um aðgang að undirliggjandi grunngögnum og útreikningum sem frumvarpsdrögin byggja á.

„SFS hafa þegar orðið áskynja um villur í tölum ráðuneytisins, en samtökunum er gert ómögulegt er að leita uppruna hlutaðeigandi villna og leiðrétta þær þegar gögn eða útreikningar ráðuneytisins eru ekki fyrir hendi. Af athafnaleysi ráðuneytisins verður ekki annað ráðið en að það kjósi að hafna faglegri úrvinnslu talna, gagnsæi og upplýstri umræðu,“ segir í yfirlýsingu sem SFS hefur sent frá sér.

Benda samtökin á að ráðuneytið hafi ekki reynt að leggja mat á áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu.

„Hagaðilar eru því tilneyddir til að vinna þá nauðsynlegu vinnu fyrir stjórnvöld. Þá eru tillögur frumvarpsins, sem sækja stuðning í norskan veruleika, þess eðlis að skilja þarf fiskveiðistjórnunarkerfi Norðmanna til hlítar, virkni uppboðsmarkaða, tilhögun veiða í einstökum stofnum og verðmyndun innan virðiskeðju sjávarútvegs þar í landi. Það verkefni verður ekki hrist fram úr erminni á einni viku.“

Báðu um lengri frest

Samtökin segjast í yfirlýsingunni „telja rétt að tilkynna sérstaklega að þau munu ekki veita umsögn í dag, innan tilskilins frests, um frumvarp atvinnuvegaráðherra um stórfellda hækkun á veiðigjaldi.“

Vísa samtökin til þess að stuttur frestur hafi verið gefinn til að rýna í afdrifaríkt flókið og veigamikið mál sem getur haft víðtæk áhrif á atvinnulíf og samfélag.

Frumvarpsdrögin voru birt í samráðsgátt klukkan eitt síðdegis 25. mars og rennur frestur út í dag. Í reglugerð um samráðsgátt er gert ráð fyrir að mál verði til umsagnar að minnsta kosti í tvær til fjórar vikur.

Fram kemur í yfirlýsingu SFS að samtökin hafi óskað eftir hóflegri framlengingu frests til umsagnar til og með 11. apríl. Því hafi hins vegar verið synjað af atvinnuvegaráðuneytinu.

Fjöldi athugasemda hafa verið gerðar við frestinn til umsagnar, bæði af hálfu einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga. Þá hafa sveitarstjórar sagt ríkisstjórnina brjóta lög með því að eiga ekki samráð um málið áður en frumvarpsdrögin voru til birtingar.

Standist ekki stjórnarskrá

Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðum aflaverðmætis til grundvallar útreikningum á veiðigjaldi verði breytt. Gert er ráð fyrir að veiðigjald á þorsk og ýsu taki aðeins mið af fiskmarkaðsverði. Jafnframt er gert ráð fyrir að veiðigjald á norsk-íslenska síld, kolmunna og makríl taki mið af uppboðsverði á mörkuðum í Noregi.

„Fyrirætlanir um tengingu við afurðir í öðru landi sem skattandlag hafa aldrei komið fram áður. Hér er því um að ræða umbyltingu á andlagi skattheimtu með veiðigjaldi. Allt vel þenkjandi og sanngjarnt fólk hlýtur að skilja að slík grundvallarbreyting þarfnast yfirlegu og ítarlegrar skoðunar,“ segir í yfirlýsingunni.

SFS vekur athygli á því aða í fyrirkomulaginu sem lagt er upp með í frumvarpsdrögunum þýði að skattskylda mun hvíla á sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi vegna norskra verðmæta sem þau hafa engan ráðstöfunarrétt yfir.

„Slíkt stenst að mati SFS ekki viðtekin viðhorf við álagningu skatta með hliðsjón af þeim kröfum sem leiða af ákvæðum stjórnarskrár. Fyrirliggjandi frumvarp skortir alla efnislega umfjöllun og greiningu á þessu álitaefni. Það kemur því, eins og á við um flest annað, í hlut SFS að greiða úr því fyrir ráðuneytið. Það krefst tíma.“

Ráðherra velji óvandaða leið

SFS kveðst stefna að því að afhenda atvinnuvegaráðuneytinu umsögn á næstu dögum.

„Við vinnu umsagnar munu SFS, nú sem fyrr, vanda til verka þannig að málefnaleg skoðun geti farið fram á frumvarpsdrögum og að hver þau lög, sem síðar kunna að verða samþykkt, byggist á réttum, aðgengilegum gögnum og vel ígrunduðum forsendum. Það er hin eina rétta leið þegar svo miklir samfélagslegir hagsmunir eru í húfi. Það er miður að ráðherra kýs að fara aðra og óvandaðri leið að sínum markmiðum og óljóst er í reynd á þessum tímapunkti hver þau markmið eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 3.4.25 595,84 kr/kg
Þorskur, slægður 3.4.25 721,00 kr/kg
Ýsa, óslægð 3.4.25 470,32 kr/kg
Ýsa, slægð 3.4.25 429,82 kr/kg
Ufsi, óslægður 3.4.25 192,85 kr/kg
Ufsi, slægður 3.4.25 234,34 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 19.3.25 11,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 17.3.25 188,00 kr/kg
Gullkarfi 3.4.25 273,71 kr/kg

Fleiri tegundir »

3.4.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Ýsa 2.261 kg
Þorskur 1.976 kg
Langa 877 kg
Keila 99 kg
Karfi 77 kg
Ufsi 58 kg
Steinbítur 34 kg
Samtals 5.382 kg
3.4.25 Sandfell SU 75 Lína
Steinbítur 584 kg
Ýsa 370 kg
Keila 186 kg
Þorskur 132 kg
Hlýri 30 kg
Langa 10 kg
Grálúða 6 kg
Samtals 1.318 kg
3.4.25 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 2.355 kg
Steinbítur 126 kg
Ýsa 15 kg
Samtals 2.496 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 3.4.25 595,84 kr/kg
Þorskur, slægður 3.4.25 721,00 kr/kg
Ýsa, óslægð 3.4.25 470,32 kr/kg
Ýsa, slægð 3.4.25 429,82 kr/kg
Ufsi, óslægður 3.4.25 192,85 kr/kg
Ufsi, slægður 3.4.25 234,34 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 19.3.25 11,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 17.3.25 188,00 kr/kg
Gullkarfi 3.4.25 273,71 kr/kg

Fleiri tegundir »

3.4.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Ýsa 2.261 kg
Þorskur 1.976 kg
Langa 877 kg
Keila 99 kg
Karfi 77 kg
Ufsi 58 kg
Steinbítur 34 kg
Samtals 5.382 kg
3.4.25 Sandfell SU 75 Lína
Steinbítur 584 kg
Ýsa 370 kg
Keila 186 kg
Þorskur 132 kg
Hlýri 30 kg
Langa 10 kg
Grálúða 6 kg
Samtals 1.318 kg
3.4.25 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 2.355 kg
Steinbítur 126 kg
Ýsa 15 kg
Samtals 2.496 kg

Skoða allar landanir »