Vinna er hafin við umhverfismat vegna langtímaáætlunar um dýpkun svonefndra Grynnsla, grynninga framan við Hornafjarðarós sem hafa takmarkað djúpristu skipa sem sigla yfir þau.
Grynnslin eru sandrif sem myndast fyrir framan sjávarfallaósa við Hornafjörð þar sem sterkir straumar bera með sér sand frá Suðurfjörum og Austurfjörum. Þessir sandflutningur og öflugir sjávarfallastraumar frá Hornafjarðarósi, ásamt úthafsöldum, móta ósa svæðisins. Sjávarfallaósar myndast þegar straumar bera efni að ósnum, sem fellur til botns og myndar sandrif.
Vegagerðin hefur nú birt matsáætlun vegna framkvæmdanna, sem VSÓ ráðgjöf hefur unnið. Þar kemur fram að unnið sé að langtímaáætlun sem feli í sér að allt að fimm milljónir rúmmetra verði fjarlægðar á tíu árum.
Skilgreint losunarsvæði er um fimm km suðaustan af Hvanney. Í matsáætluninni segir að við losun myndist efnishaugar á efnislosunarsvæðum. Haugarnir fletjist út með tímanum en það fari eftir aðstæðum hversu langan tíma það taki. Með því að hafa ríflegt losunarsvæði sé hægt að dreifa losuninni yfir stærra svæði og koma í veg fyrir að haugar byggist upp.
Tilgangur framkvæmdarinnar er að dýpka siglingarás um Grynnslin niður í allt að 11 metra svo að skip geti siglt í flestum veðrum. Skip sem sigla um svæðið rista nú um 6,8-7,4 metra en til samanburðar rista nýjustu uppsjávarskip íslenska flotans allt að 10 metra.
Í matsáætluninni segir að Grynnslin séu mikill áhrifaþáttur í siglingum og hafi ölduhæð takmarkandi áhrif á siglingar um þau. Núverandi aðstæður við Grynnslin hafi þannig áhrif á skipulagningu veiða og vinnslu á Hornafirði og áhrif á þróunarmöguleika útgerðar á Hornafirði. Reglulega yfir vetrarmánuðina séu tafir á siglingum um Ósinn og Grynnslin vegna ölduhæðar en uppsjávarskipin sem risti mest á siglingu sinni yfir Grynnslin geti ekki siglt ef ölduhæð fari upp fyrir 3-4 metra. Það geti verið hamlandi í útgerð yfir vetrarmánuðina.
Þrátt fyrir þessar hömlur vegna ölduhæðar rekist skipin oft niður á siglingu sinni yfir Grynnslin og eigi það einnig til að stöðvast á miðjum Grynnslunum. Aðstæðurnar séu óviðunandi og dragi úr því samkeppnisforskoti sem útgerðin hafi vegna nálægðar við gjöful fiskimið. Ef samkeppnishæfni útgerðarinnar minnki muni það hafa áhrif á samfélagið á Hornafirði og atvinnumöguleika í þéttbýlinu.