Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) saka atvinnuvegaráðherra um óðagot og pukur í stjórnsýslu varðandi fyrirhugaða tvöföldun á veiðigjöldum. Samtökin birtu í dag bréf til ráðherra, þar sem gagnrýnd er „tregða til að upplýsa um og afhenda undirliggjandi gögn, skort á greiningum og áhrifamati“, en skammur umsagnarfrestur brjóti í bága við reglur stjórnarráðsins og geri málefnalega umræðu ómögulega.
Í bréfinu er minnt á að SFS kaus í liðinni viku að veita ekki umsögn um frumvarpsdrög ráðherra um hækkun veiðigjalds innan vikufrests, sem samtökin telja allt of stuttan fyrir jafnumfangsmikið mál. Ráðherra synjaði hins vegar beiðni SFS um framlengingu til 11. apríl án rökstuðnings.
Í framhaldi af þeirri yfirlýsingu SFS birti ráðherra eigin athugasemdir, sem SFS er að nokkru leyti að svara í þessu opna bréfi til ráðherrans.
SFS gagnrýnir einnig að ráðuneytið hafi neitað að afhenda undirliggjandi gögn og útreikninga, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Samtökin benda á villur í tölum ráðuneytisins en segja ógerlegt að leiðrétta þær án aðgangs að gögnum, sem hindri gagnsæja umræðu.
Enn fremur telur SFS að ráðuneytið hafi ekki metið áhrif frumvarpsins, sem byggi á norskum veruleika án nægilegrar greiningar á íslenskum aðstæðum. Frumvarpið feli í sér skattlagningu á íslensk fyrirtæki út frá verðmati í Noregi, sem SFS telur brjóta gegn stjórnarskrá. Ráðherra er sakaður um að hafa vanrækt efnislega umfjöllun um þetta álitamál.
SFS hafnar fullyrðingum ráðuneytisins frá 4. apríl um að gagnabeiðnum hafi verið svarað í samræmi við upplýsingalög. Samtökin segja engan rökstudda synjun hafa borist, eins og lög kveða á um, og að vinnugögn sem ráðuneytið vísar til ættu að vera aðgengileg samkvæmt undantekningarákvæði upplýsingalaga.
Þá er samráðsferlið gagnrýnt fyrir að brjóta gegn reglum ríkisstjórnarinnar, þar sem aðeins vika var gefin til umsagna í stað lágmarks tveggja til fjögurra vikna, án sérstaks rökstuðnings.
SFS skorar á ráðuneytið að bæta úr ágöllum í stjórnsýslu, auka gagnsæi og virða upplýsingalög. Vinnubrögð ráðherra eru sögð óvönduð og markmiðin óljós, sem grafi undan trausti í málinu.