Atvinnuvegaráðherra gat engu svarað um útsvarsgreiðslur handhafa strandveiðileyfa, en spurt var á Alþingi hve háar útsvarsgreiðslur strandveiðimenn hefðu innt af hendi til sveitarfélaga árin 2016 til 2024.
Er því borið við að málefnasvið sem tengist lögum um tekjustofna sveitarfélaga heyri ekki undir atvinnuvegaráðuneytið og því engar upplýsingar um útsvarsgreiðslur að finna á þeim bænum.
„Ég lagði fram fyrirspurnina til þess að fá fram upplýsingar um áhrif, í þessu tilfelli af strandveiðum, á byggðir landsins og atvinnuvegaráðuneytinu var það um megn að afla sér upplýsinga um það og þeirra gagna sem málið varða,“ segir Vilhjálmur Árnason alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.
Skammur frestur
„Þetta kom mér mjög á óvart þar sem ráðuneytið er að leggja til breytingar á ýmsum lögum sem varða sjávarútveg, þ.m.t. á strandveiðikerfinu, eignarhaldi í sjávarútvegi, skilgreiningum á tengdum aðilum í sjávarútvegi og veiðigjöldunum, sem hafa munu mikil áhrif á sjávarútveginn og byggðir landsins þar með,“ segir Vilhjálmur.
„Það hafa verið gerðar athugasemdir af fulltrúum sjávarbyggða í landinu við það hve skammur frestur er gefinn til umsagna um veiðigjaldafrumvarpið og kvartað er yfir skorti á gögnum. Þeir fá ekki tíma til að meta áhrifin af þessu á sínar byggðir og það er ekkert gert með það hjá stjórnvöldum,“ segir hann.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.