„Ríkisstjórnin er í raunheimum með almenningi. Má bjóða minni hlutanum að koma með okkur,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra á Alþingi í dag.
Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma út í veiðigjaldafrumvarpið og benti á að forystumenn ríkisstjórnarinnar hefðu sagt að tvöföldun veiðigjalds gæti komið til á áratug.
Rétt skal vera rétt
„Nú eru allt í einu nokkrir mánuðir til stefnu, talað um leiðréttingu og að hér sé aðeins um að ræða fyrsta skrefið. Það liggur fyrir að sérfræðingar ráðuneytis hæstvirts ráðherra ráðlögðu ríkisstjórninni að leggja mat á áhrifin, ekki aðeins á mögulegar auknar tekjur af breyttu veiðigjaldi heldur einnig áhrif þess á rekstrarforsendur í sjávarútvegi og þannig aðra tekjuöflun ríkissjóðs. Það er ekki nóg að áætla tekjunám í tómarúmi. Við lifum nefnilega í raunheimum, frú forseti. Rétt skal vera rétt, sagði einn hæstvirtur ráðherra. Að mati ótal sérfræðinga í stjórnsýslunni sem og samkvæmt ótal varnaðarorðum frá sveitarstjórnum um allt land er ríkisstjórnin ekki að gera rétt,“ sagði Jens Garðar.
Hann spurði ráðherra því næst hvort það stæði enn til að leggja málið fram óbreytt „keyra það í gegn á lokadögum þings þrátt fyrir alla þá ágalla sem bent hefur verið á? Hvers vegna liggur svona mikið á?“
Einfalt svar
Hanna Katrín sagði að málið væru drög og í samráði. Nú væri verið að vinna úr þeim ríflega 100 umsögnum sem hefðu borist.
„Það eru samtöl í gangi, hafa verið í gangi á meðan málið hefur verið í samráðsgátt. Það er verið að vinna úr umsögnum. Það er verið að skoða hvort ástæða þyki til að breyta frumvarpinu áður en það kemur hingað inn í þinglega meðferð þar sem það fer sinn gang, fær vonandi málefnalega umræðu, fer í þingnefndina, annan umsagnarfrest og síðan verður það klárað. En af því að háttvirtur þingmaður spyr: Á að klára þetta? þá er svarið einfalt: Já.
Síðan hitt: Af hverju er ríkisstjórnin ekki í raunheimum? Ég ætla bara að segja þetta: Ríkisstjórnin er í raunheimum með almenningi. Má bjóða minni hlutanum að koma með okkur,“ spurði ráðherra.