Í lok síðustu viku var Fiskistofa búin að veita fleiri en 300 strandveiðileyfi vegna veiða sumarsins, e aðeins hafði verið opið fyrir skráningu í tvo sólarhringa.
Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu stofnunarinnar og segir þar að alls höfðu borist um 400 umsóknir um strandveiðileyfi. Athygli vekur að opnað var fyrir umsóknir um hádegi miðvikudag í síðustu viku, en frestur rennur ekki út fyrr en 22. apríl.
Fá allir 400 bátarnir leyfi sem hafa sótt um eru það meira en helmingur þess fjölda sem fengu leyfi vegna strandveiða á síðasta ári. Þá fengu 764 útgefin strandveiðileyfi en 756 bátar sóttu afla á grundvelli strandveiðileyfis.
Búast má við því að fleiri umsóknir berist Fiskistofu á komandi dögum, en nýjar reglur gilda um veiðarnar sem gæti gert það að verkum að bátum fækki milli ára. Fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að öllum bátum verði tryggðir 48 veiðidagar í sumar er þó talið að auka hvata til þátttöku í veiðunum og því óljóst hve mörg leyfi verða gefin út.
Eigendur með meira en 50%
Samkvæmt nýju reglugerðinni um strandveiðar þarf einn einstaklingur að eiga beint eða óbeint meira en 50% hlut í bát sem gerður er út á strandveiðar. Jafnframt þarf sá sem á meira en 50% í bátnum að vera lögskráður á bátinn og um borð í hverri veiðiferð.
„Í ljósi þess hversu seint reglugerðin kom út verður hægt að sækja um strandveiðileyfi fyrir þetta strandveiðitímabil þó svo skilyrði um eignarhald og haffæri séu ekki uppfyllt,“ segir í tilkynningu á vef Fiskistofu. Bent er þó á að leyfi verði ekki gefið út fyrr en skilyrði hafa verið uppfyllt.
Breytingin hefur verið umdeild og hafa gagnrýnendur hennar bent á að þetta setji í uppnám útgerð strandveiðibáta sem vinir, hjón eða fólk tengt fjölskylduböndum gera út í sameiningu. Stuðningsmenn breytinganna hafa hins vegar fagnað því að tekið sé fyrir útgerð strandveiðibáta sem eigendur róa ekki sjálfur heldur greiði öðrum fyrir að sinna útgerðinni, sem sagt er stríða gegn tilgangi strandveiðikerfisins.