Stýranlegir flottrollshlerar hafa verið teknir í notkun á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, uppsjávarskipi Samherja, sem nú er á kolmunnaveiðum við Færeyjar og er þar hlerunum beitt í fyrsta sinn, að því er fram kemur í færslu á vef Samherja.
Þar segir að það sé veiðarfæragerðin Vónin í Færeyjum sem smíðar hlerana sem nefnast Twister, en þeim er stýrt úr tölvukerfi skipsins í brúnni sem gerir mögulegt að hafa betri og nákvæmari stjórn á veiðarfærinu.
„Það eru nokkur skip komin með þessa hlera og útgerðirnar segja reynsluna góða, þannig að við ákváðum að uppfæra búnaðinn hjá okkur og innleiða þessa nýju tækni. Nú getur skipstjórinn hækkað eða lækkað veiðarfærið í sjónum, allt eftir því á hvaða dýpi fiskitorfurnar koma fram á leitartækjum í brúnni,“ segir Sigurður Rögnvaldsson á útgerðarsviði Samherja í færslunni.
Hlerarnir teknir um borð í Fuglafirði í Færeyjum.
Ljósmynd/Vónin
„Með gamla laginu þurfti meðal annars að stýra hlerunum með hraða skipsins, þannig að þetta er umtalsverður munur. Þessir hlerar heita Twister og eru þriðja kynslóð flottrollshlera frá færeysku veiðarfæragerðinni. Þróunin á veiðarfærum hefur verið ansi hröð á undanförnum árum og Færeyingar eru framarlega á þessu sviði,“ útskýrir hann.
Hlerarnir hafa staðist allar væntingar í fyrsta holi veiðiferðarinnar að sögn Sigurðar.
„Botnstykki var sett á skipið á Akureyri, sem er með ýmsan samskiptabúnað við hlerann. Það á auðvitað eftir að koma reynsla á þetta allt saman, en upphafið lofar sannarlega góðu. Í þessum hlerum er meðal annars stýribúnaður sem gengur fyrir endurhlaðalegum rafhlöðum, sem er stungið í hleðslu þegar þeir hafa verið hífðir um borð. Nýju hlerarnir gera veiðarnar markvissari og er meðal annars ætlað að draga úr olíunotkun, þannig að við bindum miklar vonir við þennan nýja búnað,” segir hann.