Landssamband smábátaeigenda leitaði til Persónuverndar og óskaði eftir því að tekið yrði fyrir birtingu upplýsinga um m.a. heiti skips og útgerð þess í ákvörðunum Fiskistofu um veiðileyfissviptingar sem aðgengilegar hafa verið á vef stofnunarinnar.
Persónuvernd úrskurðaði nýverið í málinu og komst að þeirri niðurstöðu að Fiskistofu væri heimilt að birta opinberlega ákvarðanir stofnunarinnar um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa á vefsíðu stofnunarinnar, þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um heiti skips, skipaskrárnúmer, útgerð skips, tilefni leyfissviptingar og til hvaða tímabils svipting nái.
Telur Persónuvernd birtingu upplýsinganna vera nauðsynlega til að fullnægja lagaskyldu sem hvíli á Fiskistofu. Þar af leiðandi væri umrædd vinnsla Fiskistofu í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, að því er fram kemur í úrskurði sem birtur hefur verið á vef Persónuverndar.
Málið má rekja aftur til ársins 2022 en í nóvember það ár barst Persónuvernd kvörtun frá Arthuri Bogasyni, formanni LS, yfir birtingu Fiskistofu á persónuupplýsingum um félagsmenn LS í ákvörðunum á vefsíðu stofnunarinnar.
„Vísað er til þess að bæði séu einstaklingar, sem sæta eiga refsikenndum viðurlögum, nafngreindir í stjórnvaldsákvörðunum Fiskistofu en einnig útgerðir og félög. Þegar um smábátasjómenn er að ræða þá jafngildi slík birting þeirra eigin nafnbirtingu þar sem fáir starfa um borð á vegum slíkra útgerða og félaga. Sé því að mati LS ljóst að um persónugreinanlegar upplýsingar sé að ræða sem birtar eru opinberlega í stjórnvaldsákvörðunum Fiskistofu,“ segir um sjónarmið LS í málsgögnum.
Metur LS það svo að nafnbirtingar í ákvörðunum Fiskistofu séu hvorki nauðsynlegar til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á stofnunni né nauðsynlegar í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem Fiskistofa fer með.
„Hvergi komi fram í 9. gr. laga nr. 36/1992 um Fiskistofu, eða í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að breytingalögum nr. 85/2022 og innleiddi fyrrgreinda 9. gr., að nafngreina skuli þá einstaklinga, eða eftir atvikum útgerðir, sem sæta refsikenndum viðurlögum í stjórnvaldsákvörðunum.“
Meint brot Fiskistofu voru að mati LS „alvarleg þar sem um íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir er að ræða sem varða atvinnuréttindi einstaklinga og geta vakið upp umræðu um mögulega refsiverða háttsemi þeirra án undangenginnar sakamálarannsóknar“.
LS hefur áður kvartað til Persónuverndar vegna Fiskistofu þegar stofnunin tók í notkun dróna til eftirlits. Gerð var breyting á lögum sem tryggði Fiskistofu nægar heimildir til eftirlits með slíkum tækjum.
Fiskistofa telur hins vegar að umrædd vinnsla persónuupplýsinga sé „nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á stofnuninni sem ábyrgðaraðila og sé nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds“.
Vísaði stofnunin til þess að skýrt sé kveðið á um í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar að Fiskistofu er skylt að birta opinberlega upplýsingar um sviptingu veiðiheimilda og tilgreina þar heiti skips, skipaskrárnúmer, útgerð skips, tilefni leyfissviptingar og til hvaða tímabils svipting nái.
„Vísað er til þess að í lögskýringargögnum komi fram að ákvæði 21. gr. laganna sé byggt á því sjónarmiði að almenningur skuli að öðru jöfnu eiga aðgang að upplýsingum í stjórnsýslunni. Þörf hafi verið talin á því að sem flestir geti átt kost á að fylgjast með framkvæmd laga á þessu sviði þar sem með því móti megi búast við að brot á lögunum upplýsist. Þá sé markmið laga nr. 57/1996 að bæta umgengni um nytjastofna sjávar og stuðla að því að þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti sem tryggi til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina.“
Jafnframt er greint frá því að með breytingum sem hafi verið gerðar á lögum um Fiskistofu hafi verið meðal markmiða að auka gagnsæi í störfum Fiskistofu sem og fyrirsjáanleika fyrir þá sem starfa í greininni og veita bæði þeim og Fiskistofu tilhlýðilegt aðhald.
Í ljósi þessa segir Fiskistofa ljóst að „löggjafinn hafi einnig tekið afstöðu til þess að umrædd birting sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna hins opinbera og að þeir vegi þyngra en þeir hagsmunir sem eru af leynd um upplýsingarnar“.
Þó tekur stofnunin fram að upplýsingar um heimilisfang útgerðaraðila séu afmáðar í ákvörðunum Fiskistofu fyrir birtingu á vef stofnunarinnar og í tilfelli einstaklinga sem eru útgerðaraðilar séu kennitölur þeirra einnig afmáðar.
Nafn skipstjóra og kennitala viðkomandi sé almennt afmáð ef það kemur fram í ákvörðuninni en „Fiskistofa tekur fram að í einu tilviki hafi nafn skipstjóra ekki verið afmáð úr birtri ákvörðun þar sem hann var jafnframt útgerðaraðili og eigandi skipsins sem svipt var veiðileyfi og nafnhreinsun því ekki talin hafa þýðingu í því tilviki. Þá séu ákvarðanir stofnunarinnar ekki birtar fyrr en nokkru eftir að málsaðili hefur átt þess kost að kynna sér ákvörðunina.“
Í niðurstöðu Persónuverndar kemur meðal annars fram að það sé mat hennar að ákvæði laga séu „afdráttarlaus og gefa til kynna skýran vilja löggjafans um birtingu tilgreindra upplýsinga, gagnsæi með framkvæmd umræddra lagabálka, aðgang almennings að upplýsingum í stjórnsýslunni og aðhald gagnvart hlutaðeigandi aðilum.“
Persónuvernd telur enn fremur ekki vera neitt sem gefi Fiskistofu heimild til að víkja frá skyldu sinni til opinberrar birtingar ákvarðana um sviptingu veiðileyfa eða afturköllun vigtunarleyfa. Gildir það óháð því hvort skip eða útgerð ber nafn útgerðarmanns eða er rekið sem einkafirma.