Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segir Alþingi engu ráða í dag. „Sjoppur“ á borð við Matvælastofnun og Fiskistofu séu komnar með lögregluvald.
Þetta er meðal þess sem Kristján segir í Sjókastinu, nýju hlaðvarpi á vegum Sjómannadagsráðs, þar sem fjallað er um málefni sjávarútvegs og hafsins.
Aríel Pétursson, þáttastjóri Sjókastsins og formaður Sjómannadagsráðs, bendir á að Kristján hafi þurft að finna fyrir miklum þrýstingi frá ýmsum hópum, þar á meðal innan Alþingis, sem séu honum ósammála um hvalveiðar. Kristján hafi ekki látið undan og hafi einhvern veginn alltaf lent á fótunum.
„Þetta er bara slagur. Alþingi ræður engu í dag hér, meira og minna. Þeir eru búnir að „source-a“ þessu öllu í þessar stofnanir. Þeir eru komnir með lögregluvald líka,“ segir Kristján.
„Taktu til dæmis Matvælastofnun. Þeir ausa út stjórnvaldssektum hér hægri vinstri. Þeim dettur þetta bara í hug og finnst þetta bara sniðugt,“ segir Kristján og segir svipaða sögu að segja með Fiskistofu. Þar hafi sekt verið lögð á hálfu ári eftir meint brot.
Ætti að rétta í málum strax
Kristján bendir á að þegar landhelgin var 12 og 50 mílur hafi Bretar og Þjóðverjar oft verið teknir í landhelgi. Þeim hafi verið stefnt í höfn og sýslumaður réttað í málinu strax. Ákæran hafi svo komið seinna.
„Að mínu mati ætti þetta að vera svona núna líka, ef að þessar sjoppur sem ég kalla, Matvælastofnun, Fiskistofa og Vinnueftirlitið – þær eru allar með þessar heimildir í dag – að þá væri réttað í þessu strax. Ekki að þeir geti verið að leika sér með upptökurnar og jafnvel klippa þær til og gera allan fjandann. Það er ekki hægt fyrir borgara að una því,“ segir Kristján.
Sjá má viðtalið við Kristján í heild sinni hér að neðan en Sjókastið er einnig aðgengilegt á helstu hlaðvarpsveitum.