Staða sjávarútvegs á Íslandi áður en kvótakerfið var tekið upp var orðin mjög erfið. „Þetta var fáránlegt styrkjakerfi og millifærslukerfi, mjög flókið og bættustu alltaf við sjóðir og sjóðir. Þetta gat ekki gengið til lengdar og það varð alltaf styttra og styttra á milli gengisfellinga. Þetta var hætt að virka,“ rifjar Stefán Þórarinsson upp í viðtali í Dagmálum þegar hann horfir til baka, til tímans rétt áður en gerð var grundvallarbreyting á fiskveiðistjórnun á Íslandi og tekið upp það kerfi sem er við líði í dag.
„Þá var þetta lokatromp á hendinni. Kvóti. Nokkurs konar „silver bullet.“ Annað hvort virkaði það og reddaði málunum eða ekki.“
Stefán kom að þeirri vinnu sem ráðist var í eftir að Alþingi samþykkti þessa silfurkúlu og þekkir því vel til aðstæðna sem voru uppi í byrjun níunda áratugs síðustu aldar. „Íslendingar fóru fram úr sér í fjárfestingum og veiði. Ég held að þjóðin hafi fyllst ofurbjartsýni þegar landhelgin var færð út í 200 mílur og við náðum að ýta erlendum veiðiþjóðum frá okkur. Við héldum þannig að við myndum sjálfkrafa veiða það sem þeir höfðu verið að veiða til viðbótar við það sem við höfðum verið að veiða. En því miður þá voru nú stofnarnir á leiðinni niður og í öðru lagi var sjávarútvegurinn okkar mjög illa undirbúinn því að í sjálfu sér voru ríkisafskipti svo gríðarleg af okkar sjávarútvegi og hafa alltaf verið. Sérstaklega í fjárfestingunni. Við getum varla sagt að það hafi verið keyptur sá koppur til landsins til að veiða, öðruvísi en að ríkið væri í því. Lánaði og lagði fram ábyrgðir og svo framvegis. Svo þegar dæmið gekk ekki upp þá byrjuðu millifærslur og ríkisstuðningur. Hann var yfirleitt tengdur rekstrinum. Þannig að það var fært frá þeim sem vel gekk hjá yfir til þeirra sem illa gekk hjá.“
Stefán tekur sem dæmi Aflatryggingasjóð. Hlutverk hans var að jafna stöðu innan greinarinnar. Ef að útgerð náði ekki að fiska sem jafngilti meðaltalinu á svæðinu sem veitt var á þá gátu menn farið niður í Fiskifélag og náð í ávísun upp á mismuninn.
Kerfið sem greinin bjó við áður en til kvótakerfisins kom var af allt öðrum toga. Heildarveiði úr stofnum var ákveðin og svo kepptust menn við að ná sem mestum hluta áður en þakinu var náð. Oft leiddi þetta til þess að veiði varð mun meiri en ráðgjöf hljóðaði upp á.
En hvernig tóku menn kvótakerfinu?
„Það er svolítið merkilegt. Menn taka ákvörðun um að fara út kvótakerfið í nóvember 1983 og þar á meðal var búið að ræða þetta á þingi LÍÚ og Fiskiþingi. Sjávarútvegsráðherra var kominn inn á þetta. Var nú ekki inni á þessu í upphafi. Allir helstu aðilar ákveða að prófa þetta. Eftir þrjá mánuði var búið að breyta lögunum, setja reglurnar og fara í gegnum alla útreikninga. Eftir þrjá mánuði var kvótinn kominn. 19. febrúar 1984 var fyrsta kvótaúthlutunin sem var send á alla aðila og þeir máttu gera athugasemdir. Svo var þetta í stórum dráttum búið í maí,“ upplýsir Stefán.
Hann nefnir í þessu samhengi stóra verkefnið sem sett var af stað undir yfirskriftinni Auðlindin okkar og var stýrt af þáverandi sjávarútvegsráðherra VG. Stefán segir það verkefni hafa tekið þrjú ár og mikill mannskapur komið að því. „Það kom ekkert út úr því.“
Stefán var gestur Dagmála á föstudaginn langa og fór þar yfir fjölmörg mál sem snúa að sjávarútvegi og þeirri stöðu sem greinin var í á sínum tíma og þær breytingar sem nú er stefnt að því að gera. Stefán segir deginum ljósara að fólk sé búið að gleyma stöðunni sem sjávarútvegur á Íslandi var í fyrir kvótakerfið. Það er kannski ekki skrítið því tæp 42 ár eru frá þeim tíma að fyrstu lögin voru samþykkt árið 1983.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni með því að smella á linkinn hér að neðan.