Ein mesta gagnrýni sem komið hefur fram á fiskveiðistjórnunarkerfið er sala á kvóta eða framsal aflaheimilda. Oft byggir sú gagnrýni á því að fiskurinn sé sameiginleg auðlind og því ætti ekki að vera hægt að selja kvóta. Stefán Þórarinsson sem kom mjög að ýmsum málum varðandi kvótakerfið þegar það var sett á var gestur Dagmála Morgunblaðsins nýverið og ræddi þar ýmis mál sjávarútvegsins. Hvað segir hann um framsal á kvóta?
„Það varð að vera. Öðruvísi verður engin hagræðing. Öðruvísi gefa menn ekki neitt eftir. Þú gast heldur ekki bara tekið þetta af mönnum. Þeir áttu lögrétt til þess samkvæmt þessu fyrirkomulagi að veiðireynsla þessara skipa gaf þeim ákveðinn rétt. Á veiðireynslu. Þeir eiga ekkert fiskinn. Það á enginn fiskinn. Þetta er alheimseign þessi fiskur.“
Nú hafa verið uppi kröfur um að breyta stjórnarskrá til að tryggja að fiskurinn sé í sameiginlegri eigu þjóðarinnar.
„Já. Ég held að það sé alger óþarfi. Við erum aðilar að Hafréttarsáttmála, Sameinuðu þjóðanna. UN Law of the Sea sem samþykktur var á Jamaica 1982. Þar var grundvöllurinn sá að allt utan tólf mílna var sameign heimsins. Líka landluktra ríkja. Þannig að það var ákveðið til þess að stuðla að skynsamlegri nýtingu þessara auðaæfa sem eru úti um allan heim að búa til þessa 200 mílna efnahagslögsögu. Það eru mjög ströng skilyrði um hvað þú mátt gera í þessari efnahagslögsögu,“ segir Stefán.
Ísland var fyrsta vestræna ríkið til að fullgilda Hafréttarsáttmálann. Það segir í inngangi samningsins: „...svo og auðlindir þeirra, væru sameiginleg arfleifð mannkynsins og skyldu rannsóknir á þeim og hagnýting þeirra fara fram til hagsbóta fyrir mannkynið í heild án tillits til landfræðilegrar legu ríkja.“
Stefán bendir á að í staðinn fyrir að strandríkin hafi umsjón með þessum auðlindum megi þau nýta auðlindir í sinni efnahagslögsögu en samkvæmt ströngum skilyrðum.
En ef við myndum ekki veiða þorsk. Bara hætta því allt í einu?
„Já. Þá mættu önnur ríki sem eru aðilar að þessum samningi banka á dyrnar og segja að á grundvelli þessa samnings viljum við fá að veiða. En við höfum ennþá réttinn til að stýra þeim.“
En þau hefðu þá eitthvað til síns máls?
„Já. Þess vegna verðum við að nýta þetta.“
Dagmálaþátturinn með Stefáni Þórarinssyni er aðgengilegur fyrir áskrifendur með því að smella á hlekkinn hér að neðan.