„Það er afar villandi þegar þessi skattahækkun er dulbúin sem svokölluð leiðrétting. Slíkt bendir til þess að eitthvað hafi verið rangt og þurfi að leiðrétta. Það er ekki staðan,“ segir Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar hf. í minnisblaði sem fyrirtækið sendir frá sér í kauphallartilkynningu.
Þar segir hann frumvarp Hönnu Katrínar Friðrikssonar atvinnuvegaráðherra skapa hvata til aðskilnaðar veiða og vinnslu sem hefur verið undirstaða virðisaukningar og arðsemi íslensks sjávarútvegs.
„Eins og málið stendur í dag þurfa sjávarútvegsfyrirtæki að bregðast við boðuðum breytingum á lögum um veiðigjald með hagræðingu og uppsögnum á fólki, auk þess sem fjárfestingar og endurnýjun mun sitja á hakanum. Þar sem markaðir afurða fyrirtækjanna eru erlendis eru ekki forsendur til að fleyta auknum kostnaði út í verðlag. Þá verður að gjalda varhug við að tengja skattlagningu á Íslandi við verð og sjávarútveg í Noregi enda forsendur verðlagningar og áhrifavaldar gerólíkir,“ segir Gunnþór.
Forstjórinn hafnar því alfarið að sjávarútvegsfyrirtækin sem reka bæði vinnslu og útgerð og stunda innri viðskipti með afla ákveði verð á afla alfarið sjálf. „Slíkt tal á ekki við rök að styðjast,“ segir hann og kveðst telja frumvarpið fela í sér „ofurskattlagningu á íslenskan uppsjávariðnað. Á þetta sér enga hliðstæðu meðal annarra fiskveiðiþjóða í heiminum.“
„Verðlagning á uppsjávarafla frá skipi miðast við að lágmarki 33% af afurðaverðmæti sé greitt fyrir manneldisfisk og 55% fyrir bræðslufisk. Eru þessi verð ísamkomulagi við sjómenn og hafa verið um áratugi. Verðlagsstofa skiptaverðs fylgist með verðunum og er farið yfir allar tölur með sjómönnum eftir vertíð og öll útflutningsverð þannig upp á borðum. Allt tal um að þetta sé einhliða í höndum útgerða er því rangt,“ útskýrir Gunnþór.
Bendir hann á að forsendur frumvarps um breytt veiðigjöld beri með sér umfangsmikla galla og vekur athygli á því að útflutningsverðmæti makríls nái ekki því viðmiðunarverði sem frumvarpið leggur til að verði grundvöllur álagningar veiðigjalda á tegundina.
Miðað við álagningu veiðigjalda síðasta árs myndi gjald á makríl verða rúmlega 1.700% meira en raunin varð.
Fram koma í minnisblaðinu útreiknaðar sviðsmyndir fyrir uppsjávarskipið Barkar NK fyrir árið 2025 og er miðað við um 50 þúsund tonna afla og tveggja milljarða króna tekjur af veiðunum. Óbreytt myndu um 27% tekna fara í laun og launatengd gjöld, 22,3% í orkukostnað og 15,7% í veiðigjöld, en 16,7% tekna færi í annan kostnað svo sem löndunar- og hafnargjöld og kostnað vegna veiðarfæra og viðhalds. Framlegð veiða Barkar yrði því 18,3% eða rétt tæpar 372 milljónir króna.
Með breyttu gjaldi samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar myndi hins vegar veiðigjald verða stærsti kostnaðurinn eða um 669 milljónir króna, það er um 32,9% af tekjum veiðanna. Framlegðin yrði þá aðeins 1,1% eða rúmar 22 milljónir króna.
„Það er mikilvægt að stjórnmálamenn kynni sér staðreyndir málsins, hvaða breytingar er verið að boða og hver áhrif af breytingunum geta orðið. Það er verið að boða talsvert meira en tvöföldun á veiðigjöldum, og það sem verra er að breytingarnar stuðla að því að sú samþætting veiða og vinnslu sem hefur komið íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð er sett í uppnám,“ segir Gunnþór.
Hann segir ljóst að stórfeld hækkun veiðigjalda mun koma niður á íbúum Fjarðabyggðar en þar starfa auk Síldarvinnslunnar sjávarútvegsfyrirtækin Eskja og Loðnuvinnslan sme gera út á uppsjávartegundir.
„Það þarf enginn að velkjast í vafa um að hækkun á veiðigjöldum á þessi þrjú félög í Fjarðabyggð uppá þrjá milljarða mun bitna á uppbyggingu þeirra, svo ekki sé talað um önnur fyrirtæki og þjónustu í Fjarðabyggð sem treysta á félögin. Til viðbótar þessu koma skerðingar vegna strandveiða mjög illa við Fjarðabyggð en fyrir hvert eitt tonn sem landað er í sveitarfélaginu af strandveiðiafla eru tekin 25 tonn í burtu frá félögunum í Fjarðabyggð.“