Samherji fiskeldi ehf., dótturfélag Samherja hf., hefur lokið fjármögnun fyrsta áfanga Eldisgarðs, nýrrar landeldisstöðvar við Reykjanesvirkjun, með útgáfu nýs hlutafjár og sambankaláni, að því er segir í tilkynningu á vef Samherja.
Fram kemur að fjármögnun fyrsta áfanga nemur 235 milljónum evra, jafnvirði 34 milljarða króna. Verkefnið er stærsta fjárfesting félagsins frá upphafi.
Jarðvegsframkvæmdir við Eldisgarð hófust í október 2024 og er landeldisstöðin staðsett í auðlindagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun með aðgang að 100% endurnýjanlegri orku frá virkjuninni sem þar er. Stöðin verður byggð í þremur áföngum.
Þegar lokið verður við að reisa fyrsta áfanga eldisstöðvarinnar mun hún framleiða 10.000 tonn af slægðum laxi en stefnt er að því að taka stöðina í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2027. Áætlað er að eitt hundrað ný störf verða til í stöðinni og annar eins fjöldi afleiddra starfa.
Fullbyggð eldisstöð mun ná framleiðsluafköstum upp á 30.000 tonn á ári, en til stendur að nýta hliðarafurðir sem falla til við framleiðsluna innan auðlindagarðs HS Orku.
„Það er afar ánægjulegt að fjármögnun nýju landeldisstöðvarinnar, Eldisgarðs, sé í höfn. Innlendir og erlendir bankar og fjárfestar sýna okkur mikið traust með sinni þátttöku. Við settum okkur skýrt markmið strax í upphafi að fá utanaðkomandi fjárfesta að þessu verkefni og það hefur nú náðst. Við væntum þess að landeldi á Íslandi skili umtalsverðri hagsæld fyrir þjóðarbúið, rétt eins og íslenskur sjávarútvegur hefur gert undanfarna áratugi,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og stjórnarformaður Samherja fiskeldis, í tilkynningunni.
„Eldisgarður byggir á reynslu okkar af landeldi í Öxarfirði. Frá árinu 2023 höfum við fjárfest í stöðinni í Öxarfirði fyrir rúmlega fjóra milljarða króna. Sú fjárfesting fólst í stækkun og innleiðingu á nýrri tækni sem verður notuð í Eldisgarði. Árangurinn af þessum breytingum hefur ekki látið á sér standa og styrkir væntingar okkar um rekstur nýju landeldisstöðvarinnar,“ segir Þorsteinn Már.
Vekur hann athygli á því að teymi hafi unnið í langan tíma að undirbúningu þessa stóra og fjárfreka verkefnis og þannig lagt grunninn að þvi sem Þorsteinn Már telur verða landaledi í fremstu röð á heimsvísu.
„Ég er afskaplega stoltur af starfsfólki Samherja á þessum tímamótum og við teljum okkur vel í stakk búin að takast á við margfalt stærra landeldi,“ segir hann.
Í tilkynnignunni segir að fjármögnun Eldisgarðs hafi verið tvíþætt. Annars vegar var um að ræða útgáfu nýs hlutafjár í Samherja fiskeldi ehf. upp á 125 milljónir evra og hins vegar sambankaláni upp á 110 milljónir evra.
Vegna mikils áhuga á verkefninu var ákveðið að auka umfang hlutafjárútgáfunnar og leggja þá grunn að næsta áfanga í uppbyggingu landeldisstöðvarinnar. Bæði innlendir og erlendir fjárfestar taka þátt í þessari stækkun útgáfunnar og er ráðgert að henni ljúki fyrir lok maí næstkomandi.
Greint er frá því að Samherji hf., sem er í dag eigandi 99% hlutafjár í Samherja fiskeldi, mun leggja til um helming hlutafjáraukningarinnar á móti fjárfestingu frá hópi fjárfesta. Þar er um að ræða AF3 slhf. (framtakssjóð í rekstri Alfa Framtaks ehf.), CCap (hollenskt fjárfestingarfélag í fjölskyldueigu) og Snæból ehf. (íslenskt fjárfestingarfélag í fjölskyldueigu). Sambankalán uppá 110 milljónir evra er leitt af Íslandsbanka með þátttöku Landsbankans, Nordea og Eksfin – Eksportfinansiering i Noregi.
Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og Arctic Securities í Osló voru ráðgjafar Samherja fiskeldis í fjármögnunarferlinu.
Birt hefur verið kynningarmyndband vegna áforma Samherja fiskeldi ehf.