„Þegar ég kom inn í matvælaráðuneytið, sem var þá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og varð svo matvælaráðuneytið, þá hugsaði ég auðvitað heilmikið um þessi átök sem hafa verið í kringum sjávarútveg á Íslandi.
Það eru svo djúp sár í þjóðarsálinni út af sjávarútvegi og mig langaði að grafa svolítið ofan í það og reyna að finna flötinn til þess að færa umræðuna um greinina svolítið áfram.“
Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og síðar matvælaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, í samtali við Aríel Pétursson, formann Sjómannadagsráðs, í Sjókastinu, hlaðvarpi Sjómannadagsráðs á dögunum.
Aríel sagði Svandísi hafa tekið slagi sem kannski ekki allir hafi þorað eða viljað taka í tengslum við sjávarútveg og vildi heyra hennar hlið.
Í viðtalinu lýsti Svandís því hvernig hún vildi finna flöt með öllum hlutaðeigandi og að umræðan myndi ekki eingöngu snúast um veiðigjöld sem ættu að vera svona eða svona há heldur um grein sem væri í raun og í grunninn svo öflug og sterk og til svo mikillar fyrirmyndar á heimsvísu að við ættum miklu meira að vera stolt af henni heldur en ósátt við hana.
„Þannig að ég leit svo á að það væri hagur bæði stjórnmálanna, almennings í landinu og ekki síður greinarinnar sjálfrar að finna þennan sameiginlega flöt,“ sagði Svandís.
Sagði hún enga opinbera stefnu hafa legið fyrir um sjávarútveg þegar hún tók við sem matvælaráðherra og að löggjöfin hafi verið mikill bútasaumur.
Allir voru sammála um að nýta bæri nytjastofna sjávar með ábyrgum hætti og tekjum dreift á sanngjarnan hátt en hún taldi að skoða þyrfti greinina frá víðara sjónarhorni en þá þröngu afmörkuðu þætti sem átök höfðu staðið um.
Hún setti af stað verkefni í ráðuneytinu sem hét Auðlindin okkar og kallaði alla, sem hagsmuna áttu að gæta að borðinu.
Til þess að draga fram sameiginlega sýn voru vinnuhópar myndaðir. Í framhaldinu voru gefnar út 60 bráðabirgðatillögur sem fóru til umsagnar og 2023 kom út skýrslan Auðlindin okkar.
Í þeirri skýrslu var viðhorfskönnun þar sem kom í ljós meira ósætti um fiskveiðistjórnunarkerfið á Norðvesturlandi en annars staðar. Þar kom einnig í ljós meiri almennur stuðningur við strandveiðar en haldið hafði verið fram.
Ein arfleið þessarar vinnu má sjá í vinnu sem núverandi stjórnvöld eru að framkvæma eins og t.d. um gagnsæisákvæði og tengsl og eignarhald í sjávarútvegi.