Lögreglan í Finnmörk í Noregi hefur ákært þrettán einstaklinga og átta fyrirtæki tengd sjávarútvegi í tengslum við rannsókn þarlendra yfirvalda á stórfelldu broti gegn ákvæðum norskra laga um nýtingu náttúruauðlinda.
Í umfangsmiklum aðgerðum norskra lögregluyfirvalda, norsku fiskistofunnar (Fiskeridirektoratet, þarlendra skatta- og tollayfirvalda og norsku strandgæslunnar í síðustu viku voru fleiri handteknir og fór fram húsleit á fleiri stöðum.
Lagt var hald á mikið magn af fiski og kóngakrabba, en grunur leikur á að fyrirtækin hafi af ásetningi og í miklum mæli vantalið magn í löndun og sölu auk þess að skrá ekki réttar tegundir.
„Ég get ekki tjáð mig í smáatriðum um það sem hefur komið fram í yfirheyrslunum, en enginn hinna ákærðu hefur játað sök og jafnframt telur lögreglan að nokkrir þeirra hafi með framburði sínum tengt sig við aðstæður sem eru ólöglegar og gætu leitt til refsiábyrgðar,“ segir Morten Daae, varðstjóri hjá lögreglunni í Finnmörk, í tilkynningu á vef norsku lögreglunnar.
Látið var til skarar skríða eftir leynilega rannsókn sem staðið hafði yfir frá sumrinu 2024. Fóru fram húsleitir í Lebesby, Gamvik, Tana, Porsanger og Hammerfest.
„Þetta virðist hafa verið gert kerfisbundið og skipulagt þannig að sjómenn hafa afhent meiri fisk og kóngakrabba, annað hvort sem hluti af kerfinu eða fundið fyrir þrýstingi til að afhenda meira en fram hefur komið í löndunar- og söluskýrslum. Við erum að rannsaka alla matvælakeðjuna, frá sjómönnum til kaupenda, til að fá heildstæða mynd af því hvernig þetta gerðist og ef einhver hefur þörf fyrir upplýsingar eða upplýsingar sem hann vill deila með lögreglunni, þá biðjum við viðkomandi að hafa samband við lögregluna,“ segir Daae.
Norska lögreglan upplýsir að lagt var hald á nokkra tugi tonna af sjávarfangi, bæði ferskt og frosið, og að unnið hafi verið að því að rýna í tilkynntar löndunartölur til að kanna lögmæti aflans. Jafnframt er verið að athuga hvort kóngakrabbinn hafi veiðst á friðunartímabili.
Þá fannst töluvert af kóngakrabba og laxi sem hafði verið geymt fram yfir síðasta neysludag í sömu geymslum og hafði verið komið fyrir öðrum ferskum sjávarafurðum. Þeim þætti málsins hefur verið vísað til matvælaeftirlits Noregs.
Einnig lagt hald á bókhaldsgögn, tölvur og síma, en unnið er að því að fara í gegnum þær upplýsingar sem í gögnunum finnast sem kunna að varpa ljósi á málið.
„Við munum nú fara yfir bókhaldsbækur, dagbækur, skýringargögn og svo framvegis, til að bera saman við tölur sem veittar eru fiskveiðiyfirvöldum, skattyfirvöldum, í útflutningsskjölum og fleira þess háttar. Þetta er umtalsvert verk sem mun halda áfram í marga mánuði. Fiskistofa, skattyfirvöld og tollyfirvöld munu einnig leggja sitt af mörkum til þessa verks,“ útskýrir Daae.
Hann segir ekki útilokað að fleiri handtökur kunna að eiga sér stað vegna málsins.
Norska fiskistofan, Fiskeridirektoratet, var með mannskap sem tók þátt í aðgerðunum í síðustu viku, sem hófust 23. apríl.
„Við berum ábyrgð á eftirliti og eftirliti í fiskveiðum og aðstoðum lögregluna þegar þörf er á faglegri þekkingu okkar við rannsóknir. Við höfum því sent út reynslumikla og hæfa skoðunarmenn til að stuðla að ítarlegri framkvæmd,“ útskýrir Karianne Moen, deildarstjóri hjá norsku stofnuninni, í tilkynningu á vef stofnunarinnar.
Hún segir norsku fiskistofuna vinna kerfisbundið gegn brotum á fiskveiðilöggjöfinni og byggir sú vinna á áhættugreiningu og söfnun mikilla upplýsinga. „Þetta er sérþekking sem er mikilvæg til að framkvæma aðgerðir sem þessar vel og sem nýtist í samstarfi við aðrar stofnanir.“
Stofnunin vinnur nú náið með norsku lögreglunni að frekari rannsókn málsins meðal annars með því að fara yfir þau gögn sem lagt hefur verið hald á og veita ítarlegar greiningar á þeim gögnum og upplýsingum sem liggja fyrir í málinu, að sögn Moen.