„Sýningin í Barcelona er einn af suðupottum sjávarútvegs í heiminum. Þar greinir maður strauma og stefnur í sjávarútvegi víða frá í heiminum, styrkir sambönd við núverandi viðskiptavini og kynnist nýjum. Þátttaka þarna er okkur því afar mikilvæg,“ segir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips. Fyrirtækið mætti með fullskipað lið, ef svo mætti að orði komast, á alþjóðlegu sjávarútvegsýninguna Seafood Expo Global sem haldin var í Barcelona á Spáni í síðustu viku.
Fulltrúar Eimskips ytra voru alls 38 og komu frá starfsstöðvum í 11 löndum af 20. Kemur þar til að fyrirtækið er í leiðandi stöðu í flutningum á Norður-Atlantshafinu, það er í löndum þar sem sjávarútvegur er mikilvæg undirstaða og atvinnugrein í sífelldri þróun. Alls tóku þátt í sýningunni um 2.000 fyrirtæki frá um 90 löndum og endurspegla þær tölur ágætlega að sýningin er mikilvægt markaðstorg og mannamót. Þarna eru samningar gerðir og línur lagðar.
Mikið er umleikis hjá Eimskip um þessar mundir í flutningum á fiski. Strandveiðar eru hafnar og þeim fylgja miklir flutningar á landi, hvort heldur er á hráefni eða unnum afurðum. Allt í keðjunni þarf að ganga upp.
„Við sjáum að blikur eru á lofti í sjávarútveginum á Íslandi, samanber að loðnuveiði hefur brugðist tvö ár í röð og minna er um makríl og þorsk. Þá fer fiskurinn æ hraðar frá löndun til útflutnings og stoppar minna við í frystigeymslum. Þá breytast starfsskilyrðin ef hækkun veiðigjalda verður að veruleika. Áskoranirnar eru því margar. En á móti kemur að laxeldið á Íslandi er að vaxa og vekur athygli eins og við sáum vel í Barcelona,“ segir Edda Rut og víkur þá að flutningunum sem eldislaxinum fylgja.
„Viðfangsefnin eru í sjálfu sér alltaf hin sömu í flutningum á ferskum afurðum. Hraði og áreiðanleiki skiptir þar öllu máli ásamt öruggri kælikeðju. Hvað laxinn varðar þá breyttust flutningar á þeirri afurð töluvert í heimsfaraldrinum. Þá fóru framleiðendur að gera tilraunir með að flytja lax sjóleiðina þegar minna framboð var af flugi og ferðir fáar. Margar gæðaprófanir hafa verið gerðar í þessu sambandi sem hafa komið flott út. Varan er sett í kældan gám strax eftir framleiðslu og kælikeðjan helst órofin allt þar til hún kemst á áfangastað. Þannig má tryggja gæði vörunnar,“ tiltekur Edda Rut.
Sjóflutningar á sjávarafurðum, svo sem laxi, milli landa eru hagkvæmari kostur en flugið og kolefnisspor er minna. „Eldislax vex mikið sem mikilvæg útflutningsvara. Um slíkt munar, til dæmis í flutningastarfsemi. Við flytjum mikið með okkar áætlunarskipum héðan frá Íslandi og eins frá Færeyjum inn á markað á meginlandi í Evrópu og í Bandaríkjunum. Eigum þá í mjög góðu samstarfi við okkar viðskiptavini til að koma þessari verðmætu vöru hratt á áfangastað,“ segir Edda Rut að síðustu.