Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, segir að búast megi við því að frumvarpið um breytingar á lögum um veiðigjald muni hafa neikvæð áhrif á atvinnugreinina og landsbyggðina.
„Sjávarútvegurinn og fyrirtækin í landinu munu örugglega halda að sér höndum til að sjá hver áhrif frumvarpsins verða. Þetta mun að öllum líkindum hafa mjög neikvæð áhrif og draga úr fjárfestingum,“ segir Íris í samtali við blaðamann að fundi loknum.
Íris var viðmælandi á pallborði á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins (SA) í gær varðandi áhrif veiðigjalda og annarra skatta á fyrirtæki.
„Við erum að kalla eftir auknu samráði“
Aðspurð hvort haft hafi verið nægilegt samráð við sveitarfélögin við gerð frumvarpsins segir Íris að svo sé ekki. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra var hins vegar ekki á sama máli á fundinum í morgun.
„Samráðið byrjaði alltof seint og við erum að kalla eftir auknu samráði. Við teljum að það sé ekki hægt að eiga þetta aukna samtal og samráð nema það verði hægt á þessu ferli. Það verði þá að taka þetta hægar, framkvæma betri greiningar og vinna með betri gögn. Ef það á að fara í hækkanir þá þarf slíkt að gerast í þrepum til þess að hægt sé að meta áhrifin á sveitarfélögin og samfélögin sem þessi fyrirtæki eru í.”
Íris segir að búast megi við því að frumvarpið muni hafa neikvæð áhrif á atvinnugreinina og landsbyggðina.