Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (UNOC3) sem haldin var þessa vikuna í Nice í Frakklandi lýkur í dag. Ein af megináherslum ráðstefnunnar er að vinna að fullgildingu samnings um líffræðilega fjölbreytni í hafinu utan efnahagslögsögu ríkja, svonefnds BBNJ-samnings, en 60 ríki þurfa að fullgilda samninginn til þess að hann verði að alþjóðalögum.
Þrettán manna sendinefnd sækir ráðstefnuna fyrir Íslands hönd. Auk þess eru tveir fulltrúar frá frjálsum félagasamtökum en Stefán Jón Hafstein fulltrúi Landverndar er annar þeirra. Blaðamaður heyrði í Stefáni til að kanna stöðuna á síðasta degi og hvort fullgilding BBNJ-samningsins væri í augsýn. „Það náðist ekki fyrir þessa ráðstefnu en það eru komin yfir fimmtíu ríki og og og ég hef fulla trú á því að það náist síðar á árinu að fara upp í sextíu. Ísland er til dæmis ekki búið að fullgilda en ég hef heimildir fyrir því að Ísland ætli að gera það núna í haust og það munu fleiri detta inn. Þetta er innan seilingar.”
Auk BBNJ-samningsins hafa umræður um námugröft á hafsbotni verið fyrirferðamiklar á ráðstefnunni, að sögn Stefáns. „Menn vildu ná samkomulagi um stöðvun þangað til það næst samkomulag um hvernig eigi að standa að málum og skipulagi og slíku,” segir hann. „Menn eru mjög margir hræddir við að rask, stórkostlegt rask á hafsbotni, geti valdið óbætanlegu tjóni. En það náðist ekki og það þarf bara að vinna í því áfram.” Bandaríkin hyggjast hraða því að kanna möguleika á námugreftri á hafsbotni og þá ákváðu norsk stjórnvöld á síðasta ári að gefa grænt ljós á að hluti norska landgrunnsins yrði kannað með námugröft í huga.
Þriðja málið sem hefur farið hátt á ráðstefnunni varðar plastmengun, sem Stefán segir flókið mál. „Sá samningur reyndist mun erfiðari heldur en margir óttuðust. Hann mun væntanlega ekki vera í höfn á þessu ári og kannski bara á næsta eða síðar.” Ein ástæða þess að erfitt var að ná samkomulagi segir Stefán vera að til þess þurfi ríki að taka sér tak en langmesta plastmengunin verði til í fátækustu löndunum þar sem erfiðara er að hrinda í framkvæmd þeim takmörkunum og reglum sem þarf til að koma böndum á málið.
Stóru fréttina hvað Ísland varðar segir Stefán þó hafa verið afdráttarlausa yfirlýsingu Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, í ræðu sinni á þinginu um að Ísland ætli að vernda vistkerfi í hafi með hliðsjón af alþjóðlegum markmiðum. Þau markmið miða að því að 30% af úthöfunum verði að verndarsvæðum fyrir árið 2030.
„Ísland er með mjög fá vernduð svæði en við erum á leið upp á við,” segir Stefán. „Hann var mjög afdráttarlaus, umhverfisráðherrann, um að Ísland vilji taka þátt í þessu ferli og leggja sitt af mörkum. Hann setti sig svolítið að veði þarna. Ég er ekkert endilega viss um að Ísland nái þrjátíu prósentunum en það er mjög mikilvægt að það lífríki sem við viljum vernda - við erum ekki bara að tala um fisk, við erum að tala um líffræðilega erfðafjölbreytni og fjölbreytileika lífríkisins - að mikilvægir staðir og mikilvæg svæði hafi forgang og fái viðunandi vernd og ræða umhverfisráðherra var mjög stefnumarkandi.”
Önnur ríki hafa þegar gripið til ýmissa aðgerða til að stuðla að aukinni vernd sinna hafsvæða en Bretar tilkynntu meðal annars á ráðstefnunni að þeir hyggist banna botnvörpuveiðar á meira en helmingi verndaðra hafsvæða Englands.
Þetta er þriðja hafráðstefnan sem haldin hefur verið. Síðast var ráðstefnan haldin í Lissabon í Portúgal 2022 en sú fyrsta var haldin í New York árið 2017.