Endurbyggingu Torfunefsbryggju við Pollinn á Akureyri lauk nýverið og var bryggjan formlega vígð í dag. Fánum prýdd í tilefni dagsins var Björg EA 7, togari Samherja, fyrsta skipið til að leggja að nýju bryggjunni. Á staðnum tóku fulltrúar Hafnarsamlags Norðurlands og Samherja á móti landfestum, þau Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. Það var svo Baldvin Þorsteinsson forstjóri Samherja sem leysti landfestarnar að vígslu lokinni.
Markmiðið með endurbyggingu Torfunesbryggju er að byggja upp samkomusvæði í nálægð við hafið en þar stendur til að opna bæði veitingastaði og verslanir. Hvalaskoðunarskip hafa haft aðstöðu við bryggjuna en með endurnýjun hennar munu smærri skemmtiferðaskip einnig geta lagt að. Bryggjan er beint fyrir neðan Gilið og stutt í miðbæinn.
Viðeigandi að akureyrskt skip vígi bryggjuna
„Þetta er stór dagur fyrir okkur Akureyringa,“ sagði Ásthildur í ræðu sem hún flutti við vígsluna. Hún sagði svæðið eiga eftir að verða líflegt og spennandi og sagðist vona að það yrði í líkingu við Aker Brygge í Ósló, „iðandi af mannlífi og skemmtilegheitum.“ Hún bætti við að það væri alveg við hæfi að glæsilegt skip eins og Björg EA hefði lagt að fyrst allra skipa.
Baldvin Þorsteinsson leysir landfestar.
Ljósmynd/Samherji/Hörður Geirsson
Guðmundur Freyr Guðmundsson, skipstjóri á Björgu EA, sagði það heiður að taka þátt í þessum merku tímamótum. „Akureyri er útgerðarbær og því viðeigandi að akureyskt skip vígi þetta mannvirki. Björg EA er glæsilegt, vel búið skip og áhöfnin sem var með mér í þessu verkefni gerði það með ánægju og stolti. Ég óska Akureyringum til hamingju með endurgerða Torfunefsbryggju og það verður spennandi að fylgjast með frekari framkvæmdum hérna á svæðinu. Þetta er ánægjulegur dagur, sem eflaust verður lengi í minnum hafður. Ég þakka Hafnarsamlagi Norðurlands fyrir að bjóða okkur að vígja bryggjuna.“