Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að veiðigjaldafrumvarpið sé byggt á skekktum útreikningi og sé hættuleg stefna gegn landsbyggðinni.
„Þegar stjórnvöld kynntu fyrirhugaðar breytingar á veiðigjöldum var því haldið fram að um sanngjarna og hóflega hækkun væri að ræða. En þegar málið er skoðað nánar – og rýnt til gagnrýninnar skoðunar með aðkomu þeirra stofnana sem hafa yfirumsjón með gjaldinu sjálfu – blasir við óþolandi skekkja og alvarlegar afleiðingar.“
Þetta kemur fram í færslu Vilhjálms á Facebook.
Hann segir skekkjuna staðfesta og hana vera gríðarlega. Upphaflega hafi verið kynnt að veiðigjaldið myndi hækka úr 29 krónum í 47 krónur á hvert þorskígildiskíló. Aftur á móti meti Skatturinn, sem reiknar árlega út veiðigjöldin, að gjaldið fari í 64 krónur. Það sé 36,2% hærra en frumvarpið sagði. Úr 29 krónum í 64 krónur er því 120,7% hækkun.
„Þetta er ekki minniháttar villa í mati – þetta er tvöföldun og rúmlega það á gjaldi sem leggst þungt á grunnatvinnugrein þjóðarinnar,“ skrifar hann og bætir við:
„Landsbyggðin undir árás. Það er langt frá því að þessi gjaldtaka leggist jafnt á samfélagið. Um 86% af öllum skatttekjum af sjávarútvegi koma frá landsbyggðinni. Þessi breyting bitnar mest á fólki í fiskvinnslu, sjómennsku og í afleiddum störfum í sjávarplássum um allt land.“
Hann bendir á það að fjöldi sveitarfélaga hafi lýst yfir áhyggjum af þessari verulegu skattahækkun og að menn óttist samþjöppun í sjávarútvegi.
„Það sem gerir málið enn alvarlegra er það hvataleysi sem skattlagningin skapar. Með veiðigjaldi sem gengur nærri öllum hagnaði, hverfur hvati til fjárfestinga í nýsköpun og búnaði, fjölgunar starfa og hækkunar launa í greininni.
Ég tel að stjórnvöld eigi alltaf að skapa fyrirtækjum góð rekstrarskilyrði – þannig verða þau samkeppnishæf, geta vaxið, fjölgað störfum og borgað starfsfólki góð laun. Það gerist ekki með ofurskattlagningu,“ skrifar hann.
Hann segir nauðsynlegt að staldra við þar sem frumvarpið sé byggt á röngum forsendum, skatturinn sé mun hærri en stjórnvöld hafa boðað.
„Við þurfum að horfast í augu við staðreyndir: þetta frumvarp er vanreiknað, það bitnar fyrst og fremst á landsbyggðinni og það dregur úr möguleikum greinarinnar til að vaxa og dafna.“