Baldvin Þorsteinsson hefur tekið við starfi forstjóra Samherja hf. af föður sínum, Þorsteini Má Baldvinssyni, sem hefur gegnt embættinu frá stofnun félagsins árið 1983. Skiptin marka þáttaskil í sögu fyrirtækisins. Ný kynslóð tekur nú við forystu eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins.
Baldvin var ráðinn í starfið fyrr í mánuðinum af stjórn félagsins og lýsir hann miklu þakklæti fyrir traustið sem honum er sýnt. „Eins og margir Akureyringar byrjaði ég ungur að árum að vinna hjá Samherja og hef gegnt margvíslegum störfum hjá félaginu í gegnum árin. Ég hef því kynnst félaginu, innviðum þess og starfsfólkinu smám saman og nú síðustu tvö árin sem stjórnarformaður Samherja. Þá hefur náið samstarf okkar feðga verið mikilvægt og gefandi. Ég bind vonir við að þessi reynsla og ólík störf í atvinnulífinu á undanförnum árum verði gott veganesti fyrir mig í starfi forstjóra. Hjá fyrirtækinu er mikill mannauður, það skiptir auðvitað mestu máli,“ segir Baldvin.
Við stjórnarskiptin tók Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Össurar hf., við formennsku í stjórn Samherja. Jón er enginn nýgræðingur í þessum efnum, en hann sat áður í stjórn félagsins á árunum 2002–2006.
Samherji stendur í dag á traustum grunni, að sögn Baldvins, og hann hyggst halda áfram á þeirri braut sem lögð hefur verið. Hann segir að áframhaldandi árangur félagsins muni byggjast á öflugri liðsheild. „Hjartað í rekstrinum er að sjálfsögðu starfsfólkið. Árangurinn byggist fyrst og fremst á þekkingu og metnaði þess. Ég hlakka til að vinna við hlið öflugrar áhafnar, þar sem valinn maður er í hverju rúmi og margar áskoranir í farvatninu. Við keppum á alþjóðlegum mörkuðum og íslenskur sjávarútvegur hefur alla burði til að vera áfram leiðandi á heimsvísu að því gefnu að íslensk stjórnvöld búi greininni gott og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi,“ segir Baldvin.
Baldvin Þorsteinsson er fæddur árið 1983 á Akureyri og er menntaður iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann hóf störf hjá Samherja eftir útskrift árið 2007 en hafði áður sinnt ýmsum störfum hjá félaginu frá barnsaldri. Hann var forstjóri Jarðborana hf. um þriggja ára skeið og leiddi stofnun og uppbyggingu Alda Seafood í Hollandi. Undanfarin ár hefur hann stýrt skrifstofu þess félags í Osló, Noregi.
Auk þess hefur hann setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, þar á meðal sem stjórnarformaður Eimskips og Olís, og sinnir nú stjórnarsetu í bæði innlendum og erlendum fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi og matvælaiðnaði.