„Telur ráðherra að KPMG sé einfaldlega að fara með rangt mál?“ spurði Þorgrímur Sigmundsson, þingmaður Miðflokksins, Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
Tilefni spurningarinnar var umsögn KPMG Law um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar þar sem fjallað er um aðferðafræði við útreikning veiðigjalda.
Þorgrímur vísaði sérstaklega til athugasemda í umsögninni þar sem segir að stuðningur við erlenda markaði sem grundvöll skattlagningar þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði, ella geti ákvæðið verið í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Hann sagði jafnframt: „Ég velti því fyrir mér […] hvort hér sé jafnvel verið að gefa í skyn að við séum að horfa fram á dómsmál í framtíðinni.“
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra svaraði og sagði að við setningu laganna hafi verið farið vandlega yfir hvort þau stæðust jafnræðisreglu og önnur mikilvæg viðmið.
„Ég tel enga ástæðu til að óttast að sú verði raunin eða að mála upp þá dökku mynd sem háttvirtur þingmaður veltir hér upp möguleikanum á,“ sagði ráðherra og bætti við að forstjóri OECD hefði lýst ánægju með að stefnt væri að markaðsverði við álagningu gjaldsins.
Þorgrímur var ekki ánægður með svarið og vísaði aftur í umsögn KPMG þar sem segir að frumvarpið skorti rökstuðning fyrir því hvers vegna verðmyndun á norskum fiskmörkuðum ætti að teljast sambærileg við íslenska markaði.
Í umsögn KMPG Law segir: „Að mati KPMG væri eðlilegt að fram færi ítarlegt mat á því hvort að slíkur samanburður sé í raun málefnalegur, og hvort hann leiði til réttlátrar
niðurstöðu við ákvörðun veiðigjalds. Í ljósi framangreinds telur KPMG mikilvægt að ákvæði frumvarpsins verði endurskoðuð með hliðsjón af þeim alþjóðlegu viðmiðum og réttaröryggissjónarmiðum sem rakin hafa verið hér að ofan.“
Eftir að hafa lesið upp það sem kemur fram í umsögn KPMG spurði Þorgrímur:
„Því finnst mér eðlileg spurning: Telur ráðherra að KPMG sé einfaldlega að fara með rangt mál?“ spurði hann.
Í lok umræðunnar svaraði Hanna Katrín og sagðist vera með næga tilfinningagreind til að átta sig á því að stjórnarandstaðan væri á annarri skoðun en hún „og KPMG fellur þá bara undir þann hatt ef rétt er eftir haft.“
„Ég hef ekki lesið þessa skýrslu í kjölinn og ætla ekki að gera hana né aðrar skýrslur keyptar af ráðgjafarfyrirtæki úti í bæ að sérstöku umfjöllunarefni hér,“ sagði ráðherra og bætti við að hún gerði fastlega ráð fyrir því að málið hefði verið tekið til skoðunar í þingnefnd.