Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur tímabært að endurskoða kolefnisgjöld á íslenskan sjávarútveg. Hann segir skattheimtuna veikja samkeppnishæfni greinarinnar gagnvart nágrannaríkjum.
Í umræðu um veiðigjöld á Alþingi í dag sagði Njáll Trausti að kolefnisgjöld á íslenskan sjávarútveg hefðu hækkað verulega á undanförnum tveimur árum.
Hann bendir á að það dragi úr samkeppnishæfni íslenskra útgerða gagnvart nágrannalöndum.
Danmörk og Noregur með niðurgreiðslur
Hann vísaði sérstaklega til þess að í Danmörku hafi stjórnvöld ákveðið að greiða niður kolefnisgjöld sjávarútvegsins frá og með þessu ári, auk þess sem sambærilegar aðgerðir hafi verið teknar upp í Noregi.
Í Færeyjum og á Grænlandi séu hins vegar engin slík gjöld lögð á skip í sjávarútvegi.
„Upp á samkeppnishæfni okkar Íslendinga þá tel ég rétt að við endurskoðum það sem kemur að þessu. Og auðvitað tengist þetta bara heildarkostnaði við útgerðina, að reka skipin. Það er ekki gott ef við erum með einhver sérákvæði hér varðandi kolefnisgjöldin, miðað við þegar við sjáum nágrannaríkin fara allt aðra leið en er verið að vinna með hér,“ sagði Njáll.
Orkuskipti í sjávarútvegi í nánd
Að mati þingmannsins er ljóst að orkuskipti í sjávarútvegi muni ekki eiga sér stað á næstu árum. Hann segir íslenskar útgerðir þegar hafa tekið stór skref í átt að minni losun með fjárfestingum í nýjum og sparneytnari skipum, sem hafi skilað miklum árangri í minni olíunotkun og lægra kolefnisspori.
„Hér er búið að bæta við háum upphæðum á síðustu tveimur árum í gegnum kolefnisgjöldin í þeirri trú að það væri að fara fram orkuskipti í sjávarútveginum í fiskveiðum. En það er ekki að gerast og er ekki að raungerast. Þetta er að færast aftar,“ sagði Njáll.
Hann telur mikilvægt að horfa til þessarar þróunar við ákvörðun um framtíðargjaldtöku og skatta á sjávarútveginn. Nauðsynlegt sé að tryggja að íslenskar útgerðir sitji ekki eftir í alþjóðlegri samkeppni vegna innlendra álaga sem aðrir þurfi ekki að greiða.