c

Pistlar:

24. maí 2022 kl. 13:45

Svanur Guðmundsson (svanur.blog.is)

Skeljungur "vinnur" mál

Hún lét ekki mikið yfir sér fréttin í Morgunblaðinu síðasta laugardag þar sem sagt var frá því að ríkið hefði tapað dómsmáli gegn Skeljungi. Sú niðurstaða hefur í för með sér að  ríkissjóður þarf að endurgreiða Skeljungi 450 milljónir króna auk dráttarvaxta. Allt vegna villu í útreikningi flutningsgjalda fyrir árin 2016 til 2019.

Þarna hafa átt sér stað mistök við álagningu og útreikning á flutningsjöfnun á eldsneyti yfir nokkurra ára skeið. Gjaldið var innheimt er af neytendum en Skeljungur fær það núna endurgreitt. 

Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvernig Skeljungur mun fara að við að skila þessum fjármunum aftur til neytenda því það voru þeir sem greiddu gjaldið til Skeljungs í upphafi. Í raun var Skeljungur einungis í því hlutverki að innheimta skatt af hverjum seldum lítra sem greiðist í gegnum flutningsjöfnunarsjóð til annarra olíusala sem eru með dreifingu úti á landi.  

Útgerðir sem eru með samning um olíuviðskipti við Skeljung munu nú augljóslega  senda bráðabirgðareikning (próforma) á félagið vegna sinna viðskipta og heimta þannig sína greiðslu til baka vegna viðskipta árin 2016-2019. Gætu það verið hátt í 160 milljónir króna sem fara til útgerða af þessum 450 milljónum. Einhverjar útgerðir hafa látið reyna á þetta nú þegar. Flutningsjöfnunarsjóður þarf í framhaldinu að innheimta hærra gjald af neytendum til að jafna þetta tjón sitt. Það hefur í för með sér að margir neytendur munu greiða þetta gjald tvisvar.DSC00294

Með þessar 450 milljónir króna í höndunum þarf Skeljungur að lækka eldsneytisverð sitt um 3 krónur á lítra (lauslega reiknað) til að deila greiðslunni út til neytenda yfir heilt ár.  

Við neytendur og skattgreiðendur eigum að geta treyst ríkisvaldinu til að sjá um okkar fjármuni og innheimta skatta og að framfylgja reglum bæði gagnvart fyrirtækjum og borgurum þessa lands. Rétt eins og við eigum að geta treyst yfirlitinu frá bankanum og að færslur þar á fjármunum skili sér til réttra aðila. Einnig viljum við öll geta treyst dómskerfinu en nú læðast að efasemdir þar sem héraðsdómur hafði áður sýknað ríkið af þessari kröfu. 

Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig Skeljungsmönnum farnast þegar kemur að því að endurgreiða þetta gjald til þeirra sem þeir innheimtu  það hjá um á sínum tíma. Það er einnig mikilvægt að skattgreiðendur fái að vita hvernig stendur á því að opinberir starfsmenn hvorki fara að lögum við innheimtu gjalda né kunni að reikna. Við hljótum að spyrja hvort málum sé svo háttað víða hjá hinu opinbera?