c

Pistlar:

30. júní 2022 kl. 16:11

Svanur Guðmundsson (svanur.blog.is)

Spjátrungi svarað

DSC00566Hugsanlega er ekki ástæða til að eyða tíma fólks með að skrifa um spjátrunga og orðháka en þessum tiltekna manni verður líklega að svara enda ritstjóri „útbreiddasta dagblaðs landsins”. Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, hélt því fram nýlega að útgerðin gæti greitt 36 milljarða í veiðileyfagjöld því það næmi aðeins 3% af eignaaukningu sjávarútvegs á hverju ári. Því svaraði ég í grein fyrir stuttu og benti á að vitlaust væri reiknað af ritstjóranum. Kaus hann að svara því engu en fékk tvo menn til að segja að útgerðin gæti greitt helling án þess að hvorugur þeirra legði neina útreikninga fram til stuðnings þeirri skoðun..

Í gær ákvað ritstjórinn að hæðast að „gamalmenni úr Reykjavík“ sem stendur í sjálfstæðum rekstri og bindur ekki bagga sína sömu hnútum og aðrir. Var ritstjórinn þar að tala um hvalveiðar Kristjáns Loftssonar, en Kristján hefur komið víða við í íslenskum sjávarútvegi og hans fyrirtæki hafa skilað miklu til samfélagsins og greitt í háa skatta í gegnum tíðina. 

Það er rétt að fáir stunda hvalveiðar í þessum heimi og þekking og geta til þess er fátíð. Hvað þá þekkingin á að koma hvalaafurðum á almennan neytendamarkað. Hvalir við Ísland borða meira af fiski en sem nemur samanlagðri veiði íslenska fiskveiðiflotans. Til að halda við því jafnvægi sem þarf að vera á milli fiskistofna þurfum við að halda hvalastofnum niðri. Í dag erum við ekki að veiða nægjanlega marga hvali úr okkar hvalastofnum. Kristján Loftsson reynir þó og berst fyrir því að nýta hvalastofna sem mest til að bæta það jafnvægi sem er í hafinu í kringum okkur. Þeir sem telja að ferðaþjónustan skaðist vegna hvalveiða og vilja um leið ótakmarkaðan fjölda ferðamanna eru ekki að hugsa um hag náttúrunar. Of mikill ágangur ferðamanna skaðar náttúruna og bann við hvalveiðum gerir það líka. 

Hagfræðistofnun tók út þjóðhagsleg áhrif hvalveiða við Ísland samkvæmt beiðni frá atvinnuvegaráðuneyti árið 2019. Niðurstaða þeirrar vinnu var að, „ [e]f stofnar hrefnu og langreyðar væru 40% minni, gæti verðmæti afla Íslendinga aukist um á annan tug milljarða króna á ári – og það eingöngu vegna beins afráns.” Jafnframt segir:  „Hagnaður af hvalaskoðun og hvalveiðum hefur verið lítill á síðustu árum. Í báðum greinum hefur því stærsti hluti virðisaukans verið laun og launatengd gjöld. Laun og launatengd gjöld allra hvalaskoðunarfyrirtækja á Íslandi námu 1.635 milljónum kr. á árinu 2017, en laun og launatengd gjöld Hvals hf. námu 1.034 milljónum króna.  Fleiri vinna við hvalaskoðun en hjá Hval hf., en laun starfsmanna Hvals hf. eru mun hærri.“ Svo mörg eru þau orð.

Sigmundur Ernir getur mín vegna haldið áfram að skrifa sinn áróður og rekið þá starfsmenn sína sem ekki skrifa eins og flokksforystan hans krefst en ég frábið mér dónaskap og rangfærslur sem hann dælir út í sínu fríblaði.