Þeir hjá Volvo segja að EX90 sé kraftmesta, tæknivæddasta og fágaðasta bifreið sem fyrirtækið hefur nokkru sinni hannað og framleitt. Og ef það er ekki nóg, þá býður bíllinn upp á pláss fyrir sjö farþega og öryggisbúnað sem slær flestum ef ekki öllum öðrum ökutækjum við. Þetta eru vissulega stór orð hjá Volvo-mönnum, en sennilega rétt líka. EX90 er hreint út sagt frábær í akstri og sterkur valkostur fyrir þá sem vilja láta fara vel um sig í umferðinni eða, eins og ég, eiga stóran skara af krökkum sem taka pláss.
Kynni mín af EX90 frá Volvo hófust í höfuðstöðvum Brimborgar í Reykjavík. Þangað var ég mættur til að fá í hendur rafmagnaðan fjölskyldubíl sem í fyrstu virtist afar kunnuglegur. Við hljótum öll að sjá það; EX90 er æði líkur hinum vel kynnta XC90 sem slegið hefur hressilega í gegn hér á eyjunni. En hann er samt ekki alveg eins og það er eitthvað framandi við EX90-bílinn. Sú tilfinning fylgir manni áfram við aksturinn, hvort sem það er úti á opnum þjóðvegi eða á götum höfuðborgarinnar, sem allar virðast einkennast af mikilli viðhaldsþörf og skorti á framtíðarsýn.
Nú veit ég ekki hvort nauðsynlegt er að lýsa innra rými bílsins í miklum smáatriðum. Þeir sem sest hafa upp í XC90 einhvern tímann á lífsleiðinni vita að sá bíll er afskaplega smekklegur að innan, einkennist í raun af munaði og þægindum. EX90 gerir það líka og heldur í þá hönnun sem Volvo veit að virkar svo vel. Ökumaður og farþegar sitja hátt uppi, eru umvafðir öryggisbúnaði, sígildri hönnun og þægindum. Allt er, eins og fyrr segir, svo kunnuglegt. En svo koma framandi hlutir í ljós á borð við stóran snertiskjá í miðjustokki við framsæti, en þar má stjórna nær öllu því sem stjórna þarf. Kannski einum of miklu. Ég meina, eru takkar ekki lengur í tísku – má ekki skilja eftir nokkra vel valda fyrir okkur sem viljum stilla hliðarspegla eða stjórna miðstöðinni án þess að sogast inn í stafrænan heim? Jæja, rúðuþurrkur og stefnuljós eru þó enn á sínum stað. Og það má þakka fyrir það.
Ekki misskilja, þessi snertiskjár er góður. Raunar frábær í notkun og gerir allt sem beðið er um án þess að hiksta eða hika. Kannski er ég bara að úreldast með aukinni tækni. Löngun eftir tökkum situr bara kirfilega föst í mér.
Þeir hjá Brimborg vissu að ég myndi fylla bílinn af krökkum og voru ófeimnir við að láta á það reyna. Sennilega vissu þeir að EX90 fer létt með að flytja stórar fjölskyldur, enda hannaður með þær í huga. Börnin eru fjögur talsins, frá sjö ára og niður í eins árs. Bílstólarnir eru því jafn margir, og sumir þeirra plássfrekir. Elstu tvö börnin fóru í þriðju og öftustu sætaröð, en til að lyfta þeim sætum upp er takki – já, takki (!) – á hægri hönd í skottinu. Sætin eru rafknúin og er því mjög þægilegt að lyfta þeim upp fyrir notkun. Þarna er einnig takki til að lækka bílinn að aftan, sem er mjög hentugt þegar bera á þunga hluti inn í skottið, og enn annar sem dregur fram krókinn.
En aftur að öftustu sætaröð: Volvo fullyrðir að hún sé nógu rúmgóð fyrir tvo fullorðna einstaklinga. Ég veit ekki alveg hvort karlmenn um og yfir 185 cm geti þægilega setið þar í lengri ferðum, en fyrir börn er sætaröðin aftur á móti mjög góð. Hvað aftursætin varðar, þá henta þau öllum. Sætin eru þægileg og fóta- og höfuðpláss mikið. Ekkert út á þetta að setja.
Farangursrými í EX90 verður að teljast mjög gott, telur vel rúmlega 600 lítra og með öftustu sætaröð í notkun er rými enn nokkuð gott fyrir innkaupapoka eða minni töskur. EX90 er því ólíkur mörgum öðrum sjö sæta bílum hvað þetta varðar. Vilji menn hins vegar enn stærra rými fyrir farangur er hægt að leggja öll sæti niður og mynda þannig rúmlega 1.900 lítra hvelfingu. Geri aðrir betur!
Verandi Volvo, þá er EX90 hlaðinn öryggis- og hjálparbúnaði af ýmsum toga. Má nefna hefðbundinn búnað á borð við blindpunktsviðvörun, bílastæðaaðstoð, útafakstursvörn og loftpúða sem bregðast við ólíkum óhöppum. EX90 er hins vegar einnig með sjálfvirkan skriðstilli, viðbragð við óvæntri umferð gangandi og hjólandi vegfarenda, sjálfvirka hemlun við gatnamót, umferðarskynjara og hugbúnað fyrir áfengislás og sjálfvirkan akstur svo fátt eitt sé nefnt. Bíllinn er því gjörsamlega hlaðinn tækni og framtíðarmúsík.
Í boði eru tvær útgáfur af EX90: Svonefndar Twin Motor og Twin Motor Performance. Sú fyrrnefnda er 408 hestöfl og er togið 779 Nm. Hröðun þar er 5,9 sekúndur úr kyrrstöðu og upp í 100 km/klst. Hin útgáfan býður upp á 517 hestöfl og er togið þá 910 Nm þar sem hröðunin er 4,9 sekúndur í hundraðið. Báðar þessar útgáfur takmarka hins vegar hámarkshraða bílsins af öryggisástæðum og er hann stilltur á 180 km/klst. Á íslenskum vegum þarf enginn að kvarta yfir því.
Á þjóðveginum svínliggur EX90, fer yfir gróft undirlag og ójöfnur af yfirvegun og öryggi. Svipaða sögu er að segja af þröngum borgargötum og þegar leggja þarf í bílastæði sem ekki hafa haldið í við stækkun ökutækja. Volvo-inn er sem hugur manns hvert sem farið er.
En fyrir hverja er þessi bíll – jú, þá ökumenn sem kjósa öryggi og stílhreint umhverfi í bland við pláss og þægindi.
Volvo EX90
Orkugjafi: Rafmagn
Drif: AWD
Hestöfl: 408
Drægni: Allt að 613 km, samkvæmt WLTP
Orkunotk.: 20,8 kWst/100 km
0-100 km/klst. á 5,9 sek.
Eigin þyngd: 2.780 kg
Hámarksþyngd eftirvagns: 2.200 kg
Farangursrými: Allt að 697 l að aftan og 46 l að framan
Hæð: 1.744 mm
Breidd: 1.964 mm
Lengd: 5.037 mm
Sætafjöldi: 7
Verð: Frá 16.790.000 kr
Umboð: Brimborg
Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 18. febrúar.