Það kemur kannski einhverjum á óvart, miðað við vinsældir og útbreiðslu merkisins hér á landi á síðustu árum, að áður en ég fékk Model Y-rafbíla lánaða hjá Tesla-umboðinu, tvo í röð, fyrst bláan árgerð 2024 og svo hvítan árgerð 2025, hafði ég aldrei áður ekið Teslu. Ég hafði að vísu sest upp í Model 3 tvisvar eða þrisvar sem farþegi en aldrei gerst svo frægur að setjast undir stýri og finna á eigin skinni aksturseiginleika bílsins, einfaldleika og spyrnukraft.
Ástæða þess að ég fékk tvo bíla lánaða, fimm daga í senn hvorn bíl, var að 2025-útgáfan var væntanleg til landsins. Ég vildi finna muninn á bílunum tveimur á eins skýran máta og mögulegt var, og hann var talsverður.
Áður en meira verður skrifað er ekki hjá því komist að minnast á landslagið sem þessi orð eru rituð í. Tesla hefur orðið bitbein í samfélagslegri umræðu og ýmsir hafa skeytt skapi sínu á fyrirtækinu vegna þátttöku forstjórans og stærsta eiganda, Elons Musks, í ýmsum stjórnaraðgerðum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, en þeir eru orðnir nánir banda- og samverkamenn.
Þessi andúð hefur birst hér á Íslandi með mótmælum fyrir framan Tesla-umboðið auk þess sem fólk hér, rétt eins og í Bandaríkjunum, hefur sett límmiða á bíla sína til að útskýra að það hafi keypt bílana áður en Elon Musk „bilaðist“. Það er meira að segja hægt að kaupa slíka miða í mörgum mismunandi útgáfum á eBay og fleiri síðum.
Það var ekki laust við að mér fyndist stundum eins og ég væri litinn hornauga úti á götu.
En nóg um það. Bíllinn er frábær og ég naut hverrar mínútu í akstri. Og verðið skemmir ekki fyrir. Hægt er að fá Model Y frá 7,2 milljónum króna, sem er gjöf en ekki gjald, eins og sagt er!
Mest áberandi nýjungin í ytra byrðinu eru fram- og afturljós sem nú hafa breyst í töffaralegar rendur í stað þess að vera bara með hefðbundnum hætti vinstra og hægra megin.
Teslur hafa stundum verið gagnrýndar fyrir að vera dálítið stamar og hastar í akstri og ekki nógu þéttar og hljóðlátar. Eftir að hafa ekið eldri útgáfunni sá ég strax hvað þar var átt við en þegar ég settist upp í nýju útgáfuna var það þeim mun meira áberandi hvað þessi atriði höfðu batnað mikið. Mýktin og fjöðrunin var áberandi betri, bíllinn þéttari og veghljóð lítið.
Það er þægilegt að setjast inn í bílinn, sem er rúmgóður og höfuðpláss gott. Auðvitað er Model Y ekki jepplingur (sem eru bifreiðar sem ákaflega auðvelt er að setjast inn í og stíga út úr) en fyrir bíl af þessari stærð er öll umgengni mjög þægileg. Ekki skemmir að ökutækið er með glerþak sem hægt er að skima í gegnum ef maður er í þannig skapi og veður er gott.
Talandi um umgengni þótti mér afar auðvelt og notendavænt að setja bílinn í hleðslu, en ég hafði nánast enga reynslu af því að hlaða rafbíla áður en ég fékk þessi tvö farartæki í hendur. Bæði notaði ég hraðhleðsluna í Fossvogi en einnig stakk ég í samband í hleðslustöð Ísorku og gekk þetta allt saman eins og í sögu. Auðvitað gerði hleðslukvíðinn frægi vart við sig þegar ég skrapp aðeins út á land en tölvan í Teslunni fann fyrir mig næstu hleðslustöð og gerði batteríið klárt áður en ég kom á staðinn.
Ég reyndi að hlaða bílinn á heimilisrafmagni en tengillinn sló alltaf út – það er líklega atriði sem ég þarf að láta rafvirkja kíkja á.
Annað umgengnismál er hvernig bíllinn læsist og opnast sjálfkrafa. Nóg er að hafa símann á sér með kveikt á Tesluappinu. Allt gekk þetta snurðulaust fyrir sig. Það sama má segja um afturhlerann. Ef maður stendur með símann í vasanum með innkaupapoka í báðum höndum líða aðeins nokkrar sekúndur þar til skottið opnast sjálfkrafa. Afar þægilegt.
Skottið sjálft er mjög rúmgott. Auðvelt er að skutla þar inn stórum hlutum eins og golfsetti. Þá eru djúpar hirslur í nærhornum sem hentugt er að henda fullum innkaupapokum ofan í. Margir kannast við það vandamál þegar aftursæti er lagt niður að sætið leggst ekki alveg niður því höfuðpúðinn rekst aftan í framsætið. Úr þessu hefur Tesla bætt því þegar maður grípur í þar til gerða sveif í skotti, til að leggja sætið niður, færist framsætið sjálfkrafa áfram og skapar þannig pláss fyrir höfuðpúðann. Aftursætið leggst kylliflatt.
Ef við minnumst á fleira sem er ólíkt með Teslubílunum tveimur er búið að fjarlægja gírstöngina hægra megin við stýrið í nýju útgáfunni. Núna færir maður bara ökutækið fram og aftur með vísifingrinum efst vinstra megin á skjánum í miðjunni. Bíllinn skynjar líka ef fyrirstaða er fyrir framan og setur sjálfkrafa í bakkgír. Það sama gildir ef fyrirstaða er fyrir aftan. Afar þægilegt og nútímalegt.
Stefnuljósastöngin er enn vinstra megin við stýrið. Einu sinni var hún fjarlægð en sett aftur inn síðar, þar sem mörgum þótti óþægilegt að hafa stefnuljósið sem takka í stýrinu.
Stefnuljósastöngin pirraði mig aðeins í 2024-útgáfu bílsins. Það var eins og hún væri aðeins moðkennd og lin, en úr því hefur verið bætt í nýju útgáfunni. Af öðrum breytingum má minnast á að skjár er kominn fyrir farþega í aftursæti. Þar geta þeir horft á skemmtiefni, spilað prumpuhljóð, opnað ljósasjó, stýrt miðstöðinni og sitthvað fleira.
Stýrið á nýju Teslunni er gæjalegt og ekki alveg hringlaga. Stýrikúlur við þumlana hvorum megin stjórna hljóði úr útvarpi og fleiru.
Einn af stóru kostunum er svo íslenskt viðmót stýrikerfisins. Mér fannst þýðingin lipur og eðlileg, og útskýringar góðar.
Innréttingin er stílhrein. Grátt tauefni í bland við plast og svo er hægt að hafa kveikt á ljósröndum í ýmsum björtum litum.
Appið er sér á báti. Það er afar aðgengilegt og létt í notkun. Þar er meðal annars hægt að finna myndbandsupptökur af allri hreyfingu í kringum bílinn, sem bætir öryggið mjög. Einnig er hægt að fylgjast með staðsetningu bílsins og innra hitastigi.
Ég notaði appið til að „affrysta“ bílinn áður en ég fór út á morgnana og það var því mjög hlýtt og notalegt að aka honum af stað í íslenska vorsvalanum.
Hitakerfið er gott. Mér finnst það dæmi um þéttleika bílsins að ég gat haft lægra hitastig úr miðstöðinni en ég er vanur á mínum eigin bíl.
Í bílnum eru hefðbundnar hirslur fyrir drykki í hurðum og í miðju og geta aftursætisfarþegar sett bækur og blöð í vasa aftan á framsæti.
Smekklegt silfurlitað lok er nú komið yfir flöskugeymsluna í miðrýminu frammi í og þar fyrir framan er hægt að hraðhlaða tvo síma í einu á bólstruðum palli. Hirslan milli framsæta er sérlega djúp og rúmgóð, rétt eins og í skotthornunum.
Tesla Model Y er bíll sem ég naut þess mjög að aka. Það verður spennandi að fylgjast með bílafyrirtækinu í framtíðinni og vonandi nær fyrirtækið að einbeita sér að því sem skiptir máli, að halda áfram að gera góðan rafbíl enn betri.
Rafhlaða: Long Range
Drægni (WLTP): 568 km
Hröðun: 4,8 sek. 0-100 km/klst.
Drif: Dual Motor með fjórhjóladrifi
Farangur: 2.138 lítrar
Þyngd: 1.997 kg
Heildarlengd: 4.790 mm
Verð frá 7.190 þús. Eins og prófaður 8.290 þús.
Umboð: Tesla Motors Iceland