Rafbíll sem á heima á plakati uppi á vegg

Rómó sólsetur við Como. Maserati hefur tekist að fara holu …
Rómó sólsetur við Como. Maserati hefur tekist að fara holu í höggi með rafmögnuðum GranTurismo. Ljósmyndir/Ásgeir Ingvarsson

Grein­in birt­ist upp­haf­lega í Bíla­blaði Morg­un­blaðsins 21. maí.

Sum­ir sjá það í hill­ing­um að ger­ast bíla­blaðamenn. Eða er til betra starf en að fá borgað fyr­ir að aka rán­dýr­um lúxuskerr­um og sport­bíl­um? Það er al­veg rétt að bíla­blaðamennsk­an get­ur – á köfl­um – verið mikið for­rétt­ind­astarf, en verk­efn­in eru yf­ir­leitt afar hvers­dags­leg og hlut­verk bíla­blaðamanns­ins aðallega að hjálpa hinum al­menna les­anda að gera upp hug sinn þegar valið stend­ur á milli afar jarðbund­inna heim­il­is­bíla.

Ekki nóg með það, held­ur eru bíl­ar í dag ósköp jafn­ir að gæðum. Alltaf má finna ein­hver smá­atriði sem mætti bæta, eða vel heppnaðar lausn­ir sem gefa ein­um fram­leiðanda for­skot á hina, en mun­ur­inn á þeim nýju bíl­um sem koma á markaðinn er hreint ekki svo mik­ill, og miklu minni en hann var fyr­ir tveim­ur eða þrem­ur ára­tug­um.

Enda kem­ur heill her sér­fræðinga að hönn­un hvers bíls, og allt er marg­prófað og mælt, svo að meiri­hátt­ar klúður eru sjald­gæf en sömu­leiðis lítið um bif­reiðar sem fara langt upp fyr­ir meðaltalið.

Þessi þróun sést hvað best á raf­bíla­markaðinum, enda mætti al­veg segja að hver einn og ein­asti raf­bíll bygg­ist á sömu tækni og mun­ur­inn fel­ist aðallega í umbúðunum. Vissu­lega er hægt að gera alls kon­ar kúnst­ir með raf­hlöðurn­ar og raf­mótor­ana, en það er lík­lega minni mun­ur á afl­rás og hönn­un raf­magns-Volkswagen og raf­magns-Ford en á bens­ín-Volkswagen og bens­ín-Ford. Sum­ir ger­ast svo kræf­ir að setja raf­bíla hrein­lega á sama stall og önn­ur raf­tæki heim­il­is­ins – eða er nokkuð svo mik­ill mun­ur á því að skrúfa sam­an þvotta­vél, ís­skáp eða farsíma, eða að púsla sam­an raf­magns­bíl? Er það nokk­ur furða að kín­versku raf­bíla­merk­in sem núna valta yfir markaðinn eigi ræt­ur sín­ar að rekja til raf­tækja­fram­leiðslu?

Hönnunin er einstaklega vel heppnuð. GranTurismo lítur vel út frá …
Hönn­un­in er ein­stak­lega vel heppnuð. GranT­uris­mo lít­ur vel út frá öll­um sjón­ar­horn­um.

Er þá nema von að kvartað sé yfir því að raf­bíl­ar nú til dags hafi ekki mik­inn „per­sónu­leika“ eða „sál“, held­ur séu ein­fald­lega sam­göngu­tæki og box á hjól­um. Þeir eru hag­kvæm­ir, hljóðlát­ir, þægi­leg­ir og geta stund­um verið mjög snögg­ir af stað; sum­ir eru með fal­legri inn­rétt­ingu en geng­ur og ger­ist og aðrir með betra not­endaviðmót í snerti­skján­um, en það er fátt við þá sem fær hjartað til að slá örar.

Sú var tíð að ung­lings­pilt­ar hengdu upp á svefn­her­berg­is­vegg­inn hjá sér vegg­spjöld af bíl­um frá Ferr­ari, Lam­borg­hini, Ford, GM og Porsche. Hvaða ung­ling­ur hefði áhuga á vegg­spjaldi af þeim raf­bíl­um sem eru á markaðinum í dag?

Tjah, nema kannski Maserati GranT­uris­mo Folg­ore!

Vinnu­dag­ar bíla­blaðamanns­ins geta oft verið hver öðrum lík­ir, en það átti ekki við um miðjan mars þegar ég fékk lykl­ana að þess­um ít­alska raf­magns-sport­bíl. Hér er loks­ins kom­inn raf­bíll sem fær ekki bara hjartað til að slá örar held­ur vek­ur svo sterk­ar til­finn­ing­ar að hætt er við gátta­flökti.

Er nokkuð hægt að finna fal­legri raf­magns­bíl? Þeir eru a.m.k. fáir, og eru þá yf­ir­leitt svo dýr­ir að ekki er nema á færi millj­arðamær­inga að eign­ast þá. Lot­us Evija er t.d. af­skap­lega fög­ur bif­reið, og bíl­arn­ir frá Rimac eru ekk­ert slor, en þeir kosta líka um og yfir tvær millj­ón­ir dala. Porsche Taycan er líka vel heppnaður og bíl­arn­ir frá Karma hafa ákveðinn sjarma, en þeir hafa ekki nærri því sömu nær­veru og GranT­uris­mo Folg­ore – en auðvitað er það smekks­atriði.

Á meðan á myndatökunni stóð birtust nokkrir forvitnir karlar og …
Á meðan á mynda­tök­unni stóð birt­ust nokkr­ir for­vitn­ir karl­ar og voru hissa þegar þeir áttuðu sig á að hér væri á ferðinni raf­magns­bíll.

Drauma­bíll sem hef­ur ekki náð flugi

GranT­uris­mo-lín­an hjá Maserati hóf göngu sína árið 2007 en syst­ur­bíll­inn GranCa­brio – þessi með blæj­una – mætti til leiks þrem­ur árum síðar. GranT­uris­mo er ætlað að vera þægi­leg­ur lúx­us-sport­bíll og lend­ir hann í flokki með bíl­um á borð við Porsche 911, Jagu­ar F-Type, BMW M4 og jafn­vel Ast­on Mart­in Vanta­ge.

Ítalska feg­urðin dylst eng­um, en GranT­uris­mo hef­ur samt aldrei þótt mikið óarga­dýr og var t.d. afl­mesta út­gáf­an af fyrstu kyn­slóð þessa bíls ekki nema 454 hest­öfl og 4,8 sek­únd­ur í hundraðið. Það er í sjálfu sér ekki ama­legt, en þó ekki nærri því jafn­mik­ill hraði og kraft­ur og hjá t.d. grunn-sport­bíl­um Ferr­ari og Lam­borg­hini á sama tíma­bili. Þá hef­ur það skemmt fyr­ir Maserati (líkt og mörg­um öðrum ít­ölsk­um fram­leiðend­um) að það orðspor hef­ur loðað við bíl­ana þeirra að vera með háa bil­anatíðni. Er þar kannski kom­in skýr­ing­in á því að þessi brjálæðis­lega fal­legi bíll frá þess­um sögu­fræga ít­alska fram­leiðanda virðist hafa átt erfitt með að ná miklu flugi.

Skraut og loftgöt hér og þar fara bílnum vel, og …
Skraut og loft­göt hér og þar fara bíln­um vel, og fara ekki yfir strikið.

Ein­hvers staðar var bent á að það væri líkt með ít­ölsk­um bíl­um og ít­ölsk­um elsk­hug­um, að feg­urðin og glæsi­brag­ur­inn hríf­ur mann, og það get­ur verið af­skap­lega auðvelt að falla fyr­ir þeim, en það er ekki alltaf hægt að treysta því að þeir fylgi manni al­veg á leiðar­enda.

Maserati gafst samt ekki upp og ný­lega var hul­unni svipt af ann­arri kyn­slóð GranT­uris­mo, og komu fyrstu ein­tök­in á göt­una árið 2023. Bíll­inn er byggður ofan á Gi­orgio-und­ir­vagn­inn sem þróaður var hjá Alfa Romeo og á að henta bæði fyr­ir ten­gilt­vinn- og raf­magns­bíla. Giulia og Stel­vio frá Alfa Romeo nota sama und­ir­vagn, sem og smájepp­inn Grecale frá Maserati, og bráðum fáum við bíla frá Dod­ge, Chrysler og Jeep með þenn­an und­ir­vagn.

Nýja kyn­slóð GranT­uris­mo er um 7 cm lengri og rúm­lega 10 cm breiðari en fyrsta kyn­slóðin, en þökk sé full­komn­ari málmblönd­um er bíll­inn 100 kg létt­ari í bens­ín­út­gáf­unni (en nokk­ur hundruð kíló­um þyngri í raf­magnsút­gáfu). Mestu skipt­ir að vél­in er orðin tölu­vert kraft­meiri: Bens­ín-út­gáf­urn­ar, eru með 3,0 l V6-vél, ann­ars veg­ar 483 hö (Mod­ena) og hins veg­ar 542 hö (Trofeo), og aðeins 3,5 til 3,9 sek­únd­ur í hundraðið.

Folg­ore-út­gáf­an er síðan alraf­mögnuð og mun kraft­meiri: Þökk sé 751 hestafli og 1.350 Nm togi rýk­ur hún af stað úr kyrr­stöðu í 100 km/​klst. á 2,7 sek­únd­um.

Það er nær enginn munur á útliti rafmagns- og bensínútgáfunnar.
Það er nær eng­inn mun­ur á út­liti raf­magns- og bens­ín­út­gáf­unn­ar.

Of breiður fyr­ir ít­ölsk þorp

Maserati lánaði mér sér­staka 110 ára af­mæl­isút­gáfu, en fyr­ir­tækið var stofnað í Bologna árið 1914. Af­mæl­isút­gáf­an er aðeins smíðuð í 110 ein­tök­um: 55 í blá­um lit og 55 með slikimatt grátt lakk, og þekk­ist líka á sér­hönnuðu „110“ merki á aft­ursúl­unni, en er að öðru leyti eins og venju­lega út­gáf­an af GranT­uris­mo Folg­ore.

Eins og sést á mynd­um fékk ég gráu út­gáf­una og verð að segja að lit­ur­inn fer bíln­um ein­stak­lega vel. Það má al­veg fylgja sög­unni að ég sótti bif­reiðina í Mílanó, en þar er orðið stór­hættu­legt að eiga fal­legt öku­tæki, vegna leiðinda­púka með skemmd­arfýsn. Ég samdi því sér­stak­lega við hús­vörðinn í blokk­inni minni að fá að lauma kagg­an­um inn í bíla­stæðakjall­ar­ann, því það virðist orðið að íþrótt hjá sum­um borg­ar­bú­um að brjóta rúður og rispa hurðir á bíl­um – og því sterk­ari virðist þessi fýsn eft­ir því sem bíl­arn­ir eru dýr­ari og fínni.

Mér rann kalt vatn milli skinns og hör­unds fyrsta dag­inn sem ég fékk að nota sport­bíl­inn, því ekki hafði ég fyrr komið hon­um í ör­uggt skjól í bíla­stæðakjall­ar­an­um en ein­hver tók sig til og rispaði fjóra bíla við inn­gang blokk­ar­inn­ar minn­ar, og það um há­bjart­an dag.

Því­lík plága og leiðindi að fólk sem ger­ir svona lagað skuli ganga laust, og er samt nógu erfitt að vara sig á dæld­um og risp­um í göml­um evr­ópsk­um borg­um þar sem stæðin eru þröng og göt­urn­ar virðast enn þrengri. Ef eitt­hvað er við GranT­uris­mo að at­huga er það kannski ein­mitt að bíll­inn er aðeins of stór fyr­ir evr­ópsk­ar aðstæður. Fékk ég að reyna það á eig­in skinni þegar ég hélt út fyr­ir bæ­inn til að reyna að taka nokkr­ar mynd­ir af glæsikerr­unni, og valdi í leiðsögu­kerf­inu punkt af handa­hófi í fjallaþorpi norður af borg­inni.

Ein­hvern veg­inn tókst mér að missa af stóru skilti sem varaði mig við að ég væri að beygja inn á veg þar sem þrengsti kafl­inn væri ekki nema tveir metr­ar á breidd­ina – á milli tveggja hús­veggja, sem báðir voru al­sett­ir risp­um eft­ir ólán­sama öku­menn. Hafi ég ein­hvern tíma verið með hjartað í bux­un­um þá var það þegar ég þurfti að bakka þess­um liðlega 200.000 evra dreka nokk­ur hundruð metra þar til ég komst aft­ur upp á þjóðveg­inn. Eft­ir það hélt ég áfram sem leið lá upp að Como-vatni og oft gerðist það að ég óskaði þess heit­ast að vera frek­ar á pínu­litl­um smá­bíl. Fyr­ir þá sem hyggja á bíltúr um Ítal­íu get ég vottað að það væri langt­um þægi­legra að aka um ít­ölsku smá­veg­ina á 50 ára göml­um Fiat 500 sem er ekki nema 1,3 metr­ar á breidd­ina, en á tveggja metra sport­bíl með sára­litla veg­hæð. Ég fyllt­ist aðdáun og undr­un í hvert skipti sem ég mætti stræt­is­vagni á veg­in­um sem ligg­ur um­hverf­is vatnið, því þar eru á ferð bíl­stjór­ar með taug­ar úr stáli og rým­is­greind í sér­flokki.

Framljósin eru einföld, en falleg og tæknilega fullkomin.
Fram­ljós­in eru ein­föld, en fal­leg og tækni­lega full­kom­in.

Erfitt að finna veik­leika

Hvað er það ann­ars sem veld­ur því að þessi ít­alski raf­magns­bíll er svona ofboðslega aðlaðandi? Gæti það verið vegna þess að út­litið var ekki hannað með vind­mót­stöðuna eina í huga? Raf­magns- og bens­ín­út­gáf­an líta nán­ast eins út, og helst hægt að þekkja bíl­ana í sund­ur á því að raf­magns-GranT­uris­mo fæst með öðru­vísi felg­um og að það vant­ar á hann púströr­in. Það sést því ekki lang­ar leiðir að þetta er raf­magns­bíll. Ég fann mér að lok­um góðan stað til að mynda glæsikerr­una – rétt í þann mund sem sól­in var að setj­ast – og eins og við var að bú­ast bar þar að nokkra for­vitna karla sem urðu all­ir hissa þegar þeir áttuðu sig á að þetta væri raf­magns­bíll.

Að utan er hönn­un bíls­ins næst­um því full­kom­in, en inn­rétt­ing­in er líka einkar vel heppnuð. Þegar sest er í öku­manns­sætið virk­ar bíll­inn all­ur vandaður og „þétt­ur“ út í eitt. Sama hvað ég leitaði fann ég ekk­ert við inn­rétt­ing­una sem pirraði mig sér­stak­lega, og aft­ur­sæt­in tvö eru meira að segja not­hæf, svo fremi að farþeg­arn­ir séu hvorki háir í loft­inu né lang­ir til mitt­is­ins. Ekk­ert var að setja út á viðmót tölv­unn­ar í bíln­um, teng­ing­in við snjallsím­ann gekk fum­laust, og þegar ég hafði átt aðeins við still­ing­arn­ar var hljóm­ur­inn úr Sonus Faber-hljóm­tækj­un­um al­veg hreint prýðileg­ur, en með þyngsta bass­ann í botni mátti greina smá titr­ing í inn­rétt­ing­unni og kannski mætti ein­hvers staðar herða skrúfu. Það er jú vand­inn við raf­magns­bíla að þeir eru svo hljóðlát­ir að það má heyra hvert minnsta suð, tif og víbring.

Talandi um hljóð, þá þótti mér tifið í stefnu­ljós­un­um svo­lítið dap­ur­legt, sem seg­ir kannski eitt­hvað um það hve langt ég þarf að seil­ast til að finna eitt­hvað til að kvarta yfir. Þá á ít­alska tón­skáldið Dar­dust heiður­inn af „vél­ar­hljóðinu“, sem leik­ur samt al­gjört auka­atriði í akst­urs­upp­lif­un­inni. Ég lét það pirra mig ör­lítið hvað bíll­inn gat verið fljót­ur að vara mig við ef ég laumaðist ögn yfir leyfi­leg­an há­marks­hraða, en kannski er það kost­ur frek­ar en galli á svona öfl­ug­um raf­magns­bíl enda ekk­ert mál að raka inn hraðasekt­um með öll þessi hest­öfl til af­nota.

Útsýnið er gott og akstursupplifunin eins og best verður á …
Útsýnið er gott og akst­urs­upp­lif­un­in eins og best verður á kosið. Það er erfitt að finna nokkuð at­huga­vert við þessa bif­reið.


Það sem helst gæti staðið í vegi fyr­ir því að gera GranT­uris­mo Folg­ere að heppi­leg­um hvers­dags­bíl er hvað veg­hæðin er lít­il, eða um 145 mm, en 205 mm ef ýtt er á takka sem hækk­ar bif­reiðina tíma­bundið, og þyrfti að aka hon­um mjög var­lega yfir ís­lensk­ar hraðahindr­an­ir. Skottið er líka afar smátt, og ef­laust er þar ein­hver raf­búnaður und­ir sem sax­ar á plássið. Með smá­veg­is lagni mætti koma þar fyr­ir heilu golf­setti, eða kannski einni stórri far­ang­ur­stösku, en sam­tals er skottið 270 lítr­ar að stærð (og 310 lítr­ar í bens­ín­út­gáf­unni).

Drægn­in er al­veg ágæt: 450 km á einni hleðslu, og hægt að bæta á raf­hlöðuna úr 10% í 80% á 18 mín­út­um, en á hraðhleðslu­stöð tek­ur 5 mín­út­ur að bæta við 100 km af drægni. Ekki reyndi á það að ég þyrfti að hlaða bíl­inn, þessa þrjá daga sem ég hafði hann til af­nota, og þrátt fyr­ir að hafa stillt bif­reiðina á kapp­akst­urs-ham nær all­an tím­ann var nóg eft­ir af orku þegar ég skilaði henni.

Eins og sést nær lítill bakpoki að fylla stóran hluta …
Eins og sést nær lít­ill bak­poki að fylla stór­an hluta af skott­inu.

Góð kaup eft­ir nokk­ur ár?

Ef ég þyrfti endi­lega að kaupa mér raf­magns­bíl, og ekki væri spurt um verðið, þá þætti mér GranT­uris­mo Folg­ore afar góður kost­ur. Þegar ég skilaði bíln­um eft­ir þriggja daga lán hafði ég fallið kylliflatur fyr­ir hon­um og kvaddi hann með trega.

En þetta er alls ekki ódýr bif­reið, og því eðli­legt að spyrja hvað annað mætti kaupa fyr­ir pen­ing­inn. Eins og kom fram hér að ofan kost­ar GranT­uris­mo Folg­ore í kring­um 200.000 evr­ur, kom­inn beint úr verk­smiðjunni, og með ís­lensk­um toll­um og gjöld­um myndi hann kosta frá 38 millj­ón­um króna kom­inn á göt­una í Reykja­vík – áður en styrk­ur úr Orku­sjóði hef­ur verið dreg­inn frá!

Til sam­an­b­urðar kost­ar Lam­borg­hini Temer­ario, í kring­um 270.000 evr­ur og hægt að finna nokk­urra ára gamla Lam­borg­hini Huracán sem kosta minna en nýr GranT­uris­mo Folg­ore. Að vísu myndu ís­lensk kol­efn­is­gjöld gera tíu strokka sport­bíl­inn frá Lam­borg­hini meira en tvö­falt dýr­ari en raf­magns-sport­bíl­inn frá Maserati, en hjá þeim siðuðu þjóðum sem stilla gjöld­um á bíla í hóf er verðmun­ur­inn ekki það mik­ill og þegar komið er upp í þenn­an verðflokk mun­ar kaup­end­ur yf­ir­leitt ekki um nokkra tugi þúsunda evra til eða frá.

En hér erum við kom­in út í vanga­velt­ur af þeim toga að við gæt­um allt eins reynt að svara því hvor væri betri fé­lags­skap­ur; Monica Bellucci eða Sophia Lor­en.

Þess utan er Maserati ekki enn með umboð á Íslandi, þó að það standi ör­ugg­lega ekki á þeim hjá Ísband að aðstoða við kaup og inn­flutn­ing ef þess er óskað, enda eru þeir vel tengd­ir hjá Stell­ant­is.

Aft­ur á móti væri það al­veg ógalið fyr­ir áhuga­sama að fylgj­ast vel með hvernig verðið á GranT­uris­mo Folg­ore kem­ur til með að þró­ast á notaða markaðinum. Það hef­ur plagað Maserati að bíl­arn­ir þeirra hafa átt það til að lækka hratt í verði, og það sama hef­ur átt við raf­bíla al­mennt.

Eft­ir tvö eða þrjú ár verður því kannski hægt að gera reyf­ara­kaup í þess­um bíl­um ef þeir eru flutt­ir notaðir til Íslands, og þá hægt að spana um göt­ur bæj­ar­ins á raf­magnaðri ít­alskri kyn­bombu sem eft­ir verður eft­ir tekið.

Sérhannaðar bronslitar felgur fást á rafbílinn.
Sér­hannaðar bronslitar felg­ur fást á raf­bíl­inn.

Maserati GranT­uris­mo Folg­ore

Raf­mótor: 751 hö/​1.350 Nm

Einn mótor að fram­an
og tveir að aft­an.

Drægni: 450 km

Raf­hlöðustærð: 92.5 kWst

0-100 km/​klst á 2,7 sek.

Há­marks­hraði 325 km/​klst

Þyngd: 2.750 kg

Lengd: 4.960 mm

Breidd: 1.957 mm (án spegla)

Framdekk: 265/​34 ZR20

Aft­ur­dekk: 295/​30 ZR21

Far­ang­urs­rými: 270 l

Áætlað verð: frá 38 m. kr.

110 ára afmælisútgáfan er sérmerkt.
110 ára af­mæl­isút­gáf­an er sér­merkt.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: