Þegar minnst er á bílamerkið smart tengja margir, þar á meðal undirritaður, það fyrst við dvergvaxinn tveggja manna, 2,5 metra langan borgarbíl sem auðvelt er að smokra í bílastæði hér og þar í þröngum evrópskum götum. Hann er svo lítill að hægt er að leggja honum bæði með hefðbundnum hætti en einnig aka honum beint inn í stæði, þversum, þannig að afturendinn vísi út á götu.
Gott ef líkamsræktarstöðin World Class notar ekki svona bifreið í snatt á höfuðborgarsvæðinu, vel merktan í bak og fyrir, en þessi týpa kom fyrst á götuna árið 1998.
Núna næstum þrjátíu árum síðar vill Smart vera meira en bara smávaxinn miðborgarbíll og hefur tekið stórt stökk fram á við með nýrri útgáfu sem kallast smart #5. Bíllinn er nú í fyrsta sinn kominn í flokk rúmgóðra, alrafmagnaðra, meðalstórra jepplinga, með eiginleikum sem höfða jafnt til daglega lífsins í þéttbýlinu sem og til ævintýralegra sveitaferðalaga og íslenskra aðstæðna, vetur, sumar, vor og haust.
Saga smart hófst árið 1994 sem samstarfsverkefni Daimler-Benz og Swatch Group, en nafnið smart kom ekki til sögunnar fyrr en árið 1997. Í dag er smart í sameign Mercedes-Benz Group og kínverska risans Geely Holding Group, og rekið undir nafni smart Europe GmbH, með aðsetur í Þýskalandi.
Ég fékk nýverið að kynnast þessum nýja, laglega og dálítið töffaralega bíl á kynningarviðburði á einkar snotru hönnunarhóteli á fallegum stað niður við vatn skammt frá Porto í Portúgal. Það er óhætt að segja að ökutækið kom skemmtilega á óvart og akstursupplifunin var reglulega ánægjuleg. Ekin var 300 kílómetra leið í hinum svokallaða Douro Dal í glampandi sól, bröttum brekkum og á bugðóttum vegum milli lítilla bæja þar sem tíminn stendur í stað.
Á kynningum á bílnum sagði starfsfólk með stolti frá því hve rúmgóður bíllinn væri. „Þú átt eftir að verða undrandi á því hvað hann er rúmgóður þegar þú stígur inn,“ sagði það, sem kom algjörlega á daginn.
Það sagði líka að markhópur bílsins væri að einhverju leyti fólk sem væri ögn ævintýragjarnara en aðrar manneskjur: #5 færi með þig á nýja staði, eins og starfsfólkið orðaði það, út í sveit, á hrjúfari vegi og kræklóttari, þó að hann hentaði á sama tíma áfram mjög vel í borgum og bæjum.
Áður en lengra er haldið er rétt að staldra við og spyrja að gefnu tilefni: Eru bílar almennt að stækka á markaðinum? Svarið er já, og oft hafa þeir stækkað verulega mikið. Samkvæmt rannsókn frá FINN Auto hefur meðalbíll í Bandaríkjunum lengst um 12% og breikkað um 17% á aðeins tíu árum. Þetta útskýrir að hluta til hvers vegna nýir bílar geta átt erfitt um vik í bílastæðum hönnuðum á sjöunda áratugnum!
Orsakirnar eru margvíslegar: Kall neytenda eftir meira rými og þægindum, strangari öryggiskröfur sem þarfnast stærri svæða fyrir loftpúða og annan búnað, og ekki síst vaxandi kröfur um tækni og snjalla upplifun inni í bílnum, sem allt tekur sitt pláss.
Nýr smart #5 er kynntur til leiks á Íslandi í þremur útfærslum af samtals fimm: Pulse, Summit og Brabus, en blaðamaður ók þeirri síðastnefndu sem jafnframt er sú öflugasta og best búna.
Verðið er frá um 7,5 milljónum króna (Pulse-útgáfan með 900 þ.kr. rafbílastyrk), sem setur hann í beina samkeppni við t.d. Tesla Model Y.
Frammi í bílnum eru tveir samliggjandi 13” snertiskjáir, þar sem farþeginn hefur sinn eigin skerm til að hlusta á tónlist, horfa á kvikmyndir, spila tölvuleiki og fara á netið.
Hægt er að „svæpa“ gögnum milli skjáa með þremur fingrum og alveg yfir í mælaborð ökumanns. Þar fyrir aftan, neðst í bílrúðunni sjálfri, birtist einnig svokölluð framrúðusýn (e. head-up display), þ.e. helstu upplýsingar fyrir ökumann. Ég verð að játa að ég gleymdi stundum að horfa á það og notaði aðallega bara mælaborðið.
Stemningslýsing að innan í ótal draumkenndum litum fylgir bílnum, og hægt er að stjórna því öllu í upplýsingaskjánum. Sennheiser-hljóðkerfi með tuttugu hátölurum fylgir með en þeirra á meðal er sérstakur upphleyptur hátalari sem stendur upp úr mælaborðinu. Þessi hátalari er kannski ekki öllum að skapi. Hann er pínu sérviskulegur, eins og reyndar bíllinn er í heild sinni, en þó bara á skemmtilegan máta.
Útliti smart #5 er best lýst sem kraftmiklu og útivistarvænu. Honum fylgja akstursstillingar fyrir sand, snjó, leðju, kletta og sjálfvirka aðlögun (e. Adaptive, Sand, Snow, Mud, Rock) og er því fær í flestan sjó.
Drægni bílsins er 540 km, stóra farangursrýmið er 1.530 lítrar með aftursætin niðri og undir húddinu er 72 lítra pláss sem rúmar eina flugfreyjutösku. Þá er hægt að leggja framsætin alveg niður og sofa í bílnum, renni manni í brjóst.
Nýr smart lofar ekki bara miklu – hann stendur við það, eins og blaðamenn fengu að upplifa. Fullyrt er í kynningarefni að hægt sé að hlaða bílinn úr 10% í 80% á 18 mínútum. Á hótelinu í Portúgal tóku fulltrúar smart sig til og sönnuðu þetta með eigin mælingum: Hleðslan tók aðeins 15-16 mínútur og stóðum við blaðamenn andaktugir álengdar og fylgdumst með.
„Fimm mínútna hleðsla gefur þér 188 km akstur. Tíu mínútur gefa 319 km,“ sagði einn tæknistjóri á staðnum og lét fylgja með að hleðslustíminn væri farinn að færast nær tímanum sem það tekur að fylla bensínbíl.
Nýr smart #5 er bíll sem er gott og gaman að keyra. Hann er rúmgóður að innan og það er auðvelt að setjast inn í hann. Hann er öflugur og langdrægur og býr yfir ýmsum skemmtilegum smáatriðum eins og takka sem leyfir farþega í aftursæti að færa framsætið fram. Þá er hönnun miðjusvæðisins frammi í skemmtileg, það er eins og brú þar sem þráðlaus hleðsla er í boði fyrir tvo síma ofan á. Undir „brúnni“ er opið á milli ökumanns og farþega.
Frumsýning á Íslandi fer fram hjá Öskju næstkomandi laugardag og það er rétt að hvetja fólk til að koma og skoða og reynsluaka þessum skemmtilega nýja rafbíl.
Smart #5 Brabus
Rafmótor: 646 hö. Fjórhjóladrif.
Drægni: 540 km.
Rafhlöðustærð: 94 kWst
0-100 km/klst. á 3,8 sek.
Hámarkshraði: 210 km/klst.
Þyngd: 2.450 kg
Lengd: 4.705 mm
Breidd. 1.920 mm
Farangursrými: 630 l
Verð eins og prófaður: 8.690.000 kr.
með rafbílastyrk.