Ekki lenda í veseni í umferðinni erlendis

Björn segir íslenska skírteinið ekki alltaf duga og vissara að …
Björn segir íslenska skírteinið ekki alltaf duga og vissara að láta útbúa alþjóðlegt ökuskírteini ef það stendur til að aka bíl utan Evrópu. Kristinn Magnússon

Það geta verið mikil viðbrigði að aka bíl erlendis og margar hættur sem þarf að varast. Björn Kristjánsson hjá FÍB, segir að ef fólk fylgi nokkrum góðum reglum þurfi ekki að kvíða akstri á ókunnugum slóðum:

„Undirbúningurinn byrjar heima í stofu því ef fólk hyggst taka bíl á leigu er mikilvægt að gefa sér tíma til að kynna sér þær bílaleigur sem standa til boða. Það getur borgað sig að lesa vandlega umsagnir um bílaleigurnar og hafa það líka á hreinu hvað er innifalið í leiguverðinu og er sú bílaleiga sem býður lægsta verðið ekki endilega með hagstæðustu kjörin þegar allt er tekið með í reikninginn,“ útskýrir hann.

Þá þarf að velja bíl af réttri stærð svo að fari vel um fólk og farangur og skoða tryggingakostina vel. „Það eru skiptar skoðanir um hvort betra sé að kaupa tryggingu frá bílaleigunni eða reiða sig á þær tryggingar sem fylgja sumum íslenskum greiðslukortum og góð regla að lesa skilmálana vandlega yfir, þó það sé kannski ekki mjög skemmtilegt.“

Björn segir að því miður stundi sumar bílaleigur þá viðskiptahætti að reyna að þvinga upp á fólk alls kyns viðbótarpökkum sem ekki er endilega mikið gagn að og þá gott að vera búinn að átta sig á valkostunum áður en lagt er af stað í ferðalagið. „Verandi nýkominn úr fimm tíma flugi með fjölskyldunni er maður ekki endilega reiðubúinn að taka slaginn við afgreiðslumann sem er að beita miklum þrýstingi eða vill t.d. ekki taka íslenskar kortatryggingar gildar. Því ágætt að hafa útprentað eintak af tryggingaskilmálunum meðferðis.“

Mikill munur getur verið á starfsháttum bílaleiga eftir því í hvaða landi bíllinn er leigður og frá hvaða fyrirtæki. Sums staðar eru viðskiptahættirnir mjög afslappaðir á meðan á öðrum stöðum virðist reynt að nýta hvert tækifæri til að klekkja á viðskiptavininum, s.s. með því að binda háa fjárhæð á greiðslukorti sem tryggingu eða kenna viðskiptavininum um hverja minnstu rispu sem finnst á bifreiðinni að loknum lánstímanum. Segir Björn að hér komi sér vel að hafa lesið umsagnir annarra, og þá sé það góð regla að m.a. taka mynd sem sýnir stöðuna á bensíntankinum þegar tekið er við bílnum og ljósmynda bílinn í bak og fyrir áður en ekið er af stað og svo aftur þegar honum er skilað. Segir Björn líka ágætt að mynda bílinn að innan áður en farþegum og farangri er komið fyrir, og t.d. aðgæta hvort að varadekkið sé á sínum stað. „Ég man eftir tilviki þar sem motturnar vantaði í bílaleigubílinn og átti svo að rukka fyrir mottustuldinn þegar bílnum var skilað,“ segir hann.

Ekki geyma neitt í bílnum

Fínt er að vera ekki í tímaþröng þegar ferðalagið byrjar og minnir Björn á að fólk gefi sér góðan tíma til að læra á bílinn: vitaskuld þarf að stilla af spegla og sæti, en líka finna út hvar stilla má ljósin, virkja rúðuþurrkurnar og loftkælinguna, en allt eru þetta takkar sem fólk vill ekki þurfa að leita að þegar komið er út í umferðina.

Þá er umferðarmenningin mjög breytileg á milli landa og oft verulegur munur á gæðum bílainnviða. Sums staðar fylgja allir reglunum upp á hár á meðan önnur svæði iðka meira skapandi túlkun á umferðarreglunum og á sumum svæðum eru götur og stæði breið á meðan í öðrum löndum eru göturnar þröngar og stæðin bæði fá og smá. Björn segir oft hægt að finna myndbönd á vefnum sem renna yfir hvernig rétt sé að haga sér í umferðinni á hverjum stað. „Eitt sem Íslendingar ættu að passa sig sérstaklega á er að aðrar þjóðir hafa ekki sömu reglur um akstur í hringtorgum. Á Íslandi hefur ytri akreinin ekki forgang, en í öðrum löndum er því öfugt farið.“

Það léttir stórlega aksturinn í útlöndum að nota leiðsögukerfi en Björn segir líka ógalið að grúska í forritum á borð við Google Maps áður en ekið er af stað og skoða aðstæður á áfangastaðnum. „Ef stefnan er sett á hótel, eru þá bílastæði fyrir framan hótelið? Eða er auðvelt að finna stað til að geyma bílinn yfir nótt? Eru götur í kring sem ekki eru ætlaðar almennri umferð? Ég man t.d. eftir félagsmönnum sem dvöldust í fallegri borg í tvær vikur og gerðu sér ekki grein fyrir því að dag hvern keyrðu þau inn götu þar sem bílaumferð er bönnuð og voru sektuð í hvert skipti. Svo barst þeim reikningurinn þegar heim var komið.“

Talandi um þjófnað, þá segir Björn það góða reglu að skilja ekkert eftir í bílnum yfir nótt og t.d. taka allar töskur inn á hótelherbergi, og hvað þá ef finna má merkingar á bílnum sem gefa til kynna að um sé að ræða bílaleigubíl. „Svo ætti fólk að gefa sér góðan tíma þegar bílnum er skilað. Finna þarf nálæga bensínstöð til að fylla á tankinn og láta starfsmann kvitta upp á ástand bílsins áður en lyklunum er skilað. Góð regla er að taka mynd af stöðunni í bensíntankinum og kílómetramælinum við þetta tækifæri.“

Upphækkaðir jeppar ekki endilega leyfðir

Svo eru líka þeir sem halda út í heim á sínum eigin bíl og segir Björn að þurfi m.a. að heyra í tryggingafélaginu og fjármögnunarfyrirtækinu ef lán hvílir á bifreiðinni. „Kíkja þarf á tryggingaskilmálana og sjá hvort allt er í sóma, og gæti þurft að fá leyfi lánveitandans fyrir því að taka bílinn úr landi. Hafa þarf í huga að í mörgum löndum er gerð krafa um að ýmiss konar öryggisbúnaður sé í bílnum og getur fólk átt von á sektum ef þennan búnað vantar. Þetta eru tæki á borð við öryggisvesti, sjúkrakassa og slökkvitæki, og jafnvel að þurfi að hafa aukasett af perum,“ segir Björn og minnir á að breyttir bílar séu ekki alltaf heppilegir til notkunar erlendis. „Það sem okkur gæti þótt frekar sakleysisleg upphækkun á jeppa gæti reynst vera ólöglegt á þýskum götum og sömuleiðis getur aukabúnaður á borð við stórar hlífðargrindur verið óleyfilegur.“

Ekki gleyma alþjóðlega ökuskírteininu

Alla jafna dugar að vera með íslenskt ökuskírteini í umferðinni í Evrópu en ef ferðast er lengra út í heim er vissara að renna fyrst við hjá FÍB og fá þar alþjóðlegt ökuskírteini.

Um er að ræða lítinn bækling sem ritaður er á nokkrum tungumálum og vottar það að handhafinn sé með gilt íslenskt ökuskírteini. Í löndum á borð við Japan er það ófrávíkjanleg skylda að Íslendingar framvísi alþjóðlegu ökuskírteini ef þeir vilja taka bifreið á leigu og annars staðar getur alþjóðlega ökuskírteinið einfaldlega sparað fólki leiðindi. „Hvort sem það er bílaleigan eða lögreglumaður sem spyr þá tekur alþjóðlega ökuskírteinið af allan vafa um að handhafinn megi aka bifreið,“ segir Björn. „Man ég eftir einum félagsmanni sem var t.d. stöðvaður í Bandaríkjunum og sá fram á töluvert vesen þegar hann rétti lögreglumanninum íslenskt ökuskírteini sem hann gat hvorki botnað upp né niður í, en með alþjóðlega ökuskírteinið við höndina var allt á hreinu og félagsmaðurinn gat haldið áfram leiðar sinnar án tafar.“

Alþjóðaökuskírteinið kostar 2.600 kr. og gildir í 12 mánuði, en félagsmenn FÍB fá liðlega 75% afslátt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: