Opna hraðhleðslustöðvar á Húsavík

InstaVolt áætlar að opna 300 hraðhleðslustöðvar á Íslandi á næstu …
InstaVolt áætlar að opna 300 hraðhleðslustöðvar á Íslandi á næstu tveimur árum. Ljósmynd/Aðsend

Breska fyrirtækið InstaVolt hefur opnað fjórar nýjar hraðhleðslustöðvar á Húsavík og eru hraðhleðslustöðvar fyrirtækisins því orðnar 32 talsins víðs vegar um land.

Í tilkynningu frá InstaVolt segir að fyrirtækið áætli að opna 300 hraðhleðslustöðvar á Íslandi á næstu tveimur árum. Fyrirtækið hefur nú þegar opnað stærsta hraðhleðslugarð landsins, með tuttugu hraðhleðslustöðvum, á Aðaltorgi í Reykjanesbæ sem og hraðhleðslustöðvar í Friðheimum og við Bjarnabúð í Reykholti. Þá hefur fyrirtækið opnað tvær hraðhleðslustöðvar við Hótel Sigló á Siglufirði. 

„Húsavík er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins, hvort sem er hjá erlendum eða innlendum ferðamönnum. InstaVolt sér mikil tækifæri í að opna stöðvar á Norðurlandi en það er liður í því að hraðhleðsluvæða Ísland og styðja við áætlun stjórnvalda um orkuskipti fyrir árið 2040,” er haft eftir Adrian Pike, stjórnarformanni InstaVolt, í tilkynningunni.

InstaVolt leggur áherslu á auðvelt aðgengi að stöðvunum þar sem greitt er fyrir hleðsluna með greiðslukorti eða síma. Ekki þarf að nota sérstaka greiðslulykla eða app. 

mbl.is