Hekla frumsýnir nýjan Skoda Kodiaq

Skoda Kodiaq hefur átt vinsældum að fagna hjá íslenskum kaupendum.
Skoda Kodiaq hefur átt vinsældum að fagna hjá íslenskum kaupendum.

Ný kynslóð Skoda Kodiaq verður frumsýnd hjá Heklu á Laugavegi 174 á laugardag en þar verður blásið til hátíðar frá kl. 12 til 16.

Skoda Kodiaq kom fyrst á markað árið 2017 og hefur notið töluverðra vinsælda á Íslandi en meira en 930 Kodiaq eru á götum landsins. Nú hefur hulunni verið svipt af annarri kynslóð Kodiaq og er bifreiðin rúmbetri en fyrsta kynslóðin auk þess að koma í fyrsta sinn með tengiltvinn-aflrás, en tengiltvinnútgáfan er með 118 km drægni á rafmagninu einu saman. Einnig verður hægt að fá Kodiaq með 190 hestafla dísilvél og áfram verður í boði sjö sæta útgáfa.

Í tilkynningu frá Heklu kemur fram að staðalbúnaður Kodiaq hafi breyst töluvert og má t.d. nefna að nýja kynslóðin er með leðuráklæði á sætum, minnisstillingar fyrir bílstjórasæti, sjónlínuskjá og ýmsan öryggisbúnað.

Nýja kynslóðin er 6 cm lengri og stækkar skottið um 75 lítra og rúmar því samtals 910 lítra. Innanrýmið hefur verið endurhannað og skartar m.a. 13 tommu aðgerðaskjá, stafrænu mælaborði og nýjum aðgerðahnöppum (e. smart dials).

Á viðburðinum á laugardag verða einnig til sýnis aðrir bílar frá Skoda, auk þess sem  sýningarsalir Audi og Volkswagen eru fullir af áhugaverðum bifreiðum. Veltibíll verður á svæðinu, pylsur og Prince Polo og mun DJ Dóra Júlía þeita skífum.

Skottið á annarri kynslóð Kodiaq er 75 lítrum stærra.
Skottið á annarri kynslóð Kodiaq er 75 lítrum stærra.
mbl.is