Kynna nýjan tengiltvinnknúinn Tucson

Tucson er mest seldi jepplingur Hyundai og hefur selst í …
Tucson er mest seldi jepplingur Hyundai og hefur selst í rúmlega sjö milljón eintökum frá því hann kom fyrst á markað árið 2004.

Ný og uppfærð útgáfa af jepplingnum Tucson verður frumsýnd hjá Hyundai á Íslandi á laugardag milli 12 og 16.

Bifreiðin er tengiltvinnknúin og með aldrifi, og verður fáanleg í fjórum búnaðargerðum sem allar eru búnar 252 hestafla 1.600 cc bensínvél og rafmótor ásamt rafhlöðu, en rafhlaðan ein nægir til að aka í allt að 60 km skv. WLTP-staðlinum.

Bílaframleiðandinn hefur breytt og bætt Tucson á ýmsa vegu og skartar ytra byrði bílsins m.a. uppfærðu grilli og framsvuntu ásamt endurhönnuðum díóðu-dagljósum og aðalljósum. Ný díóðu-fjölnotaljós eru að aftan og sameina ýmsar aðgerðir, s.s. stöðuljós, bremsuljós og stefnuljós. Í tilkynningu frá Hyundai segir jafnframt að úrval álfelga og bíllita hafi verið aukið frá því sem áður var.

Farþegarýmið hefur jafnframt verið endurhannað með þægindi og tækninýjungar að leiðarljósi. Gefur þar m.a. að líta tvo 12,3 tommu sveigða miðlæga og stafræna skjái og þriggja punkta stýri með „shift by wire“ drifvali. Þráðlaus hleðsla er innbyggð í armpúða ökumanns og ný tveggja svæða loftstýring er í bifreiðinni.

Kaupverðið er frá 8.190 þús til 9.490 þús og er innifalin 7 ára framleiðsluábyrgð og 8 ára ábyrgð á rafhlöðu.

 

Sveigðir skjáir setja sterkan svip á innréttinguna.
Sveigðir skjáir setja sterkan svip á innréttinguna.
mbl.is