Frumsýna Renault Scenic E-Tech á laugardag

Dómarar í Genf féllu kylliflatir fyrir bílnum
Dómarar í Genf féllu kylliflatir fyrir bílnum

Glatt verður á hjalla hjá BL við Sævarhöfða á laugardag en þá verður rafbíllinn Renault Scenic E-Tech frumsýndur. Bifreiðin hefur vakið mikla hrifningu og var m.a. valin Evrópubíll ársins 2024 á bílasýningunni í Genf og var einnig valin besti fjölskyldurafbíll ársins hjá TopGear.

Bílaumboðið notar tækifærið jafnframt til að fagna því að 70 ár eru liðin frá því Bifreiðar og landbúnaðarvélar, forveri BL, tók til starfa. Í tilkynningu segir að í tilefni af þessum tímamótum verði boðið upp á sérstök afmælistilboð á bílum, og afmæliskaka borin fram í sýningarsalnum við Sævarhöfða og einnig hjá Jaguar Land Rover við Hestháls og hjá Hyundai við Kauptún í Garðabæ.

Stjórnkerfið þykir mjög fullkomið og býður upp á alls konar …
Stjórnkerfið þykir mjög fullkomið og býður upp á alls konar afþreyingu.

Renault Scenic kom fyrst á markað árið 1996 og hreppti strax árið 1997 titilinn Evrópubíll ársins. Þessi margverðlaunaði bíll hefur verið í hópi vinsælustu bifreiða Renault á helstu mörkuðum en árið 2022 var framleiðslu hans hætt tímabundið og vinnan við nýja kynslóð sett á fullt.

Er Renaut Scenic E-Tech að fullu rafknúinn með allt að 625 km drægni. Hann er búinn öllum nýjasta öryggisbúnaði og fullkomnu afþreyingarkerfi, en 525 lítra skottið má stækka með því að fella niður öftustu sætaröðina.

Framleiðandinn leitaðist við að gera bílinn umhverfisvænan og er t.d. ekkert leður notað í farþegarýminu, ekkert króm á ytra byrði bifreiðarinnar og rafhlaðan gerð úr endurvinnanlegum efnum.

Renault Scenic E-Tech kostar frá 7,39 milljónum króna þegar búið er að draga frá styrk frá Orkusjóði.

 

 

 

mbl.is