Sýna rafmagnaðan Porsche Macan á laugardag

Macan hefur notið mikilla vinsælda síðan hann kom á markað …
Macan hefur notið mikilla vinsælda síðan hann kom á markað árið 2015. Bílabúð Benna

Á laugardag frumsýnir Bílabúð Benna nýjustu kynslóð Porsche Macan sportjeppans. Í tilkynningu segir að bifreiðin komi nú 100% rafmögnuð og verður hún fáanleg í þremur útfærslum: Macan 4, Macan 4S og Macan Turbo en allar eru þær með fjórhjóladrifi, 100 kWst rafhlöðu og allt að 2.000 kg dráttargetu.

Fjórhjóladrifinn Macan 4, sem kostar 14.950.000 kr, er 408 hestöfl og með allt að 612 km drægni. Macan Turbo er 639 hestöfl, aðeins 3,3 sekúndur í 100 km/klst. og með 591 km drægni. Macan 4S lendir síðan mitt á milli með 516 hestöfl en hefur 606 km drægni.

Í tilkynningu er haft eftir Benedikt Eyjólfssyni, forstjóra Bílabúðar Benna, að lengi hafi verið beðið eftir að fá að kynna nýjan Macan fyrir landsmönnum. „Með nýjum Macan er Porsche enn og aftur að sýna mátt sinn sem bílaframleiðandi og við erum sannfærð um að landsmenn muni falla fyrir þessum magnaða sportjeppa. Nýr Macan er hluti af markmiðum Porsche um að auka framleiðslu á rafbílum og draga úr kolefnisspori.“

Frumsýning nýs Porsche Macan fer fram í sýningarsalnum á Krókhálsi 9 og stendur yfir frá kl. 12 til 16.

Með nýrri 800 volta rafhlöðutækni þykir Macan bjóða upp á …
Með nýrri 800 volta rafhlöðutækni þykir Macan bjóða upp á mikla hröðun og lipurð í akstri. Bílabúð Benna
mbl.is