Sendibíla hef ég ekki marga keyrt um ævina en úr því var bætt til muna í Haag í Hollandi á dögunum þegar Toyota bauð til kynningar á nokkrum tegundum slíkra bíla, þar á meðal hinni íturvöxnu nýjung Toyota Proace Max.
Veðrið í Hollandi var ekki af verri endanum og hentaði vel til sendibílaaksturs. Það var ekki laust við að maður leiddi hugann að því þarna við stýrið að það væri kannski margt vitlausara en að kaupa sér sendibíl og hefja atvinnurekstur á honum, svo lipur var Maxinn í umgengni og akstri þrátt fyrir stærð og umfang.
Með tilkomu Proace Max má segja að Toyota loki hringnum og bjóði nú upp á allar tegundir vinnubíla, stóra og smáa, en hleðslugeta Max er „litlir“ sautján rúmmetrar.
Hægt er að fá Proace Max í margvíslegu sniði, með eða án kassa, með palli sem hægt er að halla aftur og til hliðar og margt fleira en einnig er hægt að nota alla vinnubílana í farþegaflutninga og fylla þá af sætum.
Bifreiðin, ásamt minni bílunum Proace og Proace City, fæst bæði bensín- og dísilknúin eða sem rafmagnsbíll. Proace Max hefur 420 km drægni á rafhlöðunni, Proace 350 km og Proace City 330 km til samanburðar. Það getur verið áskorun að leggja jafn stórum sendibíl og Maxinum í stæði, sem í sinni lengstu mynd er 6,36 metrar, en nemar og myndavélakerfi hjálpa til.
Á kynningunni kom fram að Toyota spáir því að 90% bílanna verði seld með einhverjum aukahlutum eins og hliðarsturtu, en einnig er hægt að fá hann alveg strípaðan að aftan, þ.e eingöngu með húsi.
Að innan er bílinn reglulega snyrtilegur og aðgengilegur og er meðal annars boðið upp á tíu tommu snertiskjá í miðjunni, líkt og kominn er í nær alla fólksbíla nú til dags. Þá er Apple CarPlay og Android Auto til staðar. Enn fremur er sérstakt kerfi í bílnum sem styður hann í miklum vindi.
Á kynningunni sýndi Toyota einnig uppfærðan Toyota Hilux-pallbíl, Hilux 48V, en hann hefur lengi verið vinsæll á Íslandi. Meðal nýjunga þar er tengiltvinn-útfærsla. Kom fram að markmið Toyota með vinnubílunum er að útvega atvinnulífinu hentugar vinnubifreiðar sem hjálpa til í dagsins önn og gera vinnudaginn auðveldari.
Ástæðan fyrir því að Toyota vildi bæta bíl eins og Max í flotann var einfaldlega sú að áður gat fyrirtækið einungis þjónustað 70% af markaðnum en nær nú upp í 100%. Nú eiga þeir bíla í öllum stærðarflokkum.
Á kynningunni voru uppfærðir Proace og Proace City líka kynntir og boðinn reynsluakstur á þeim sem ég þáði með þökkum, og voru það einnig hinir ánægjulegastu bíltúrar.
Á kynningunni í Hollandi sem fór fram í gömlu flugskýli þar sem bílunum var stillt upp til sýnis, komu fram athyglisverðar sölutölur; til dæmis það að Toyota seldi 46 þúsund vinnubíla í Evrópu árið 2016 en á síðasta ári, 2023, seldust til samanburðar 140 þúsund bifreiðar og hefur vöxturinn verið stöðugur um 6% á ári.
Á kynningunni var saga atvinnubílanna rakin stuttlega. Þar kom fram að Hilux-pallbíllinn hefði komið fyrst á markað árið 1968 og fyrsti Hiace-sendibíllinn árið 1969. Árið 2016 var stigið stórt skref í sögu þessara bíla þegar samið var við Stellantis, fjórða stærsta bílaframleiðanda í heimi, um smíði sendibílanna, en Stellantis framleiðir til dæmis hina vinsælu Peugeot-vinnubíla.
Eins og Toyota-eigendur vita best sjálfir þá er fyrirtækið þekkt fyrir að veita góða þjónustu og það á einnig við um vinnubílana. Þar er viðskiptavinurinn í forgrunni og lofar Toyota t.d. allt að tíu ára ábyrgð, eða upp í 185 þúsund kílómetra keyrslu, undir heitinu Toyota Relax. Toyota er eina fyrirtækið sem býður slíka þjónustu í dag að því er kom fram á kynningunni.
Þá fá eigendur vegaaðstoð 24 tíma sólahrings og nýjan bíl lánaðan ef hinn bilar, en allt miðar þetta að því að engar tafir þurfi að verða á atvinnustarfsemi eigenda bílanna. Stuðningsnetið í Evrópu er víðfeðmt fyrir atvinnubílana. Útstöðvar eru 300 og stefnt er að því að fjölga þeim upp í 500 árið 2025. Það er til marks um þá áherslu og þann þunga sem Toyota setur nú í þennan flokk bifreiða.
Markaðshlutdeild Toyota í Evrópu í vinnubílum í dag er sjö prósent en fyrirtækið er meðal sex söluhæstu í þessum flokki.
Það ætti enginn að verða svikinn af Proace Max enda hægt að nota hann í margvíslega starfsemi og það sama á við um minni bílana eins og tíundað var á kynningunni í Haag í Hollandi á dögunum.