Renault 5 Evrópubíll ársins

Sögu hins nýja Renault 5 má rekja allt aftur til …
Sögu hins nýja Renault 5 má rekja allt aftur til 8. áratugarins. Ljósmynd/Renault

Eftir mikla yfirlegu sammæltist risastór dómnefnd evrópskra bílablaðamanna um að smábíllinn Renault 5 skyldi hljóta titilinn Evrópubíll ársins 2025. Voru úrslitin tilkynnt á bílasýningunni í Brussel um síðustu helgi en auk Renault 5 er sportúgáfa bifreiðarinnar, Alpine A290, einnig handhafi þessa eftirsótta titils.

Í fréttatilkynningu frá BL kemur fram að Renault 5 verði frumsýndur á Íslandi í sumar.

Meðlimir dómnefndarinnar höfðu m.a. á orði í umsögnum sínum að Renault 5 markaði kaflaskil í orkuskiptum einkabílaflotans og að hönnun bifreiðarinnar væri einstaklega vel heppnuð, jafnt að innan sem utan. Dómarar lofuðu Renault 5 líka fyrir skemmtilega aksturseiginleika, gott efnisval og vandaða samsetningu.

Renault 5 sigraði með nokkrum yfirburðum og hlaut 353 stig hjá dómurunum. Næst á eftir komu Kia EV3 (291 stig), Citroën C3 (215 stig), Hyundai Inster (172 stig), Dacia Duster (168 stig), Cupra Terramar (165 stig) og Alfa Romeo Junior (136 stig).

Í fyrra var það Renault Scenic sem varð fyrir valinu sem Evrópubíll ársins og segir BL að það hafi aðeins gerst einu sinni áður í 62 ára sögu keppninnar að sami framleiðandinn hreppti titilinn tvisvar í röð.

Von er á Renault 5 til Íslands í sumar.
Von er á Renault 5 til Íslands í sumar. Ljósmynd/Renault
mbl.is