Mikið verður um dýrðir í Kauptúni um helgina en þá fer fram árleg Jeppasýning Toyota. Í tilkynningu frá umboðinu segir að þessi veglega sýning sé fyrir löngu orðin fastur viðburður – og hátíðisdagur – hjá íslenskum jeppaunnendum.
Toyota kynnti Land Cruiser 250 til leiks á síðasta ári og verður hann í aðalhlutverki á sýningunni að þessu sinni. Að sögn Toyota hefur þessum merkilega jeppa verið vel tekið og er hann orðinn áberandi í umferðinni.
„Fram undan er fyrsta ferðasumarið á Land Cruiser 250 og á laugardag gefst því gott tækifæri til að sjá bílinn í fjölbreyttum útfærslum; bæði óbreyttan sem og 33” – 37” breyttan,“ segir í tilkynningu.
Á sýningu laugardagsins verður líka hægt að skoða nokkrar útgáfur af Hilux og ýmsan búnað sem tilheyrir jeppaferðalögum frá Bílanausti og Ellingsen. Þá verða Crawler fjallahjólhýsi á staðnum en þau voru einmitt til umfjöllunar í bílablaði Morgunblaðsins í janúar.
Jeppasýning Toyota Kauptúni á laugardag stendur yfir frá kl. 12 – 16.