Kia fer nýja leið í hönnun atvinnubíla

PV5 byggir á sama undirvagni og öll PBV-línan og er …
PV5 byggir á sama undirvagni og öll PBV-línan og er megináherslan á aðlögunarhæfni. Ljósmynd/Kia

Suðurkóreski bílaframleiðandinn Kia frumsýndi á dögunum rafbílinn PV5 en um er að ræða fyrsta ökutækið í nýrri línu atvinnubifreiða með samheitið PBV.

PBV stendur fyrir „Platform Beyond Vehicle“ og byggir á hugmyndafræði sem í grófum dráttum má lýsa þannig að eigendur bifreiðanna geti átt auðvelt með að aðlaga þær að eigin þörfum og geti einnig nýtt hugbúnað til að nota þessi ökutæki með sem skilvirkustum hætti.

Í tilkynningu frá Kia er PV5 lýst sem „heildrænni samgöngulausn sem sameinar sérsniðna rafbíla og háþróaðar hugmyndir bílaframleiðandans“. Þar segir jafnframt að „PBV-bílar Kia munu opna dyrnar að nýjum rekstrarmöguleikum og lífstíl með því að endurskilgreina skilning fólks á rými með háþróuðu og sérsniðnu innanrými sem veitir fullkomið frelsi og sveigjanleika“.

Tölvuteikning af farþegarými PV5 sem skipulagt hefur verið sem nokkurs …
Tölvuteikning af farþegarými PV5 sem skipulagt hefur verið sem nokkurs konar smástrætó.

PV5 á að vera fjölhæfur rafbíll og henta bæði fyrir vöru- og farþegaflutninga. Býður hann upp á sérsniðna uppsetningu í takt við þarfir viðskiptavina, en bætt gagnatenging við umheiminn þýðir að miðla má til og frá ökutækinu gagnlegum upplýsingum s.s. um heppilegustu akstursleiðina eða hvenær afhending á vöru mun fara fram. PBV-bifreiðirnar eiga þannig að geta myndað einn sameinaðan flota sem stjórna má og samstilla í gegnum þar til gerðan hugbúnað til að bæta afköst og nýtingu.

Allir bílarnir í PBV-línunni byggja á E-GMP.S-undirvagninum sem býður upp á breytilegar yfirbyggingar. Í tilviki PV5 má hlaða ökutækið í 100% á 30 mínútum ef notast er við hraðhleðslustöð og er uppgefin drægni 400 km samkvæmt WLTP-staðlinum.

Tölvuteikning sem gefur innsýn í hugmyndir Kia. Hér hefur sérsmíðuð …
Tölvuteikning sem gefur innsýn í hugmyndir Kia. Hér hefur sérsmíðuð innrétting verið fjarlægð úr sendibíl til að búa til frístandandi sölubás.
Innréttingin gerir m.a. ráð fyrir því að fella upp sæti …
Innréttingin gerir m.a. ráð fyrir því að fella upp sæti til að rúma farþega í hjólastól.
Á þessum þverskurði sést vel skipting farþegarýmis og vöruflutningahólfs.
Á þessum þverskurði sést vel skipting farþegarýmis og vöruflutningahólfs.
Að utan er PV5 mjög nútímalegur í útliti.
Að utan er PV5 mjög nútímalegur í útliti.
mbl.is